Fyrsta íbúðin í nýjum íbúðum eldri borgara afhent

Guðmunda Hjartardóttir fékk afhenta fyrstu íbúðina í nýja raðhúsinu að Hrannarstíg 28 – 40 nú um helgina. Síðar í vikunni munu Ragnar Kristjánsson og Þórdís Gunnarsdóttir fá sína íbúð afhenta. Fyrirhugað er að þriðja íbúðin verði tilbúin um miðjan mánuðinn og tvær síðustu þann 15. maí næstkomandi. Þá verður eftir að ljúka frágangi lóðar og vinnu utanhúss sem áætlað er að verði lokið 1. júní.  

Heimastjórnin 100 ára

Á sunnudaginn kemur, 1. febrúar, verða liðin 100 ár frá því Íslendingar fengu heimastjórn, þingræði var fest í sessi og Stjórnarráð Íslands stofnað. Flutningur framkvæmdavaldsins til Íslands 1. febrúar 1904 markaði þáttaskil og var stærsta skrefið í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði. Sjá nánar á www.heimastjorn.is   Flaggað verður við opinberar byggingar á sunnudaginn og hvatt er til þess að almenningur geri slíkt hið sama.    

Fundur um sameiningarmál

Sveitarstjórnarmenn úr öllum sveitarfélögunum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu komu saman til fundar í Grundarfirði í gærkvöldi, þar sem umræðuefnið var möguleg aukin samvinna sveitarfélaganna og jafnvel sameining þeirra. Það var héraðsráð Snæfellinga sem boðaði til fundarins.   Ágætis umræður voru á fundinum en það var mál manna að ekki eigi að gefa sér fyrirfram hvort eigi að sameina sveitarfélögin, heldur verði slík ákvörðun að byggjast á sterkum rökum. Einnig voru reifaðir möguleikar á aukinni samvinnu sveitarfélaganna.   Samþykkt var að fela héraðsráði Snæfellinga að koma með tillögu til sveitarstjórnanna um tilhögun könnunar á kostum og göllum sameiningar.  

Breytingar á bæjarskrifstofunni

Á næstunni verða þær breytingar á bæjarskrifstofunni að Eyþór Björnsson sem gegnt hefur starfi bæjarstjóra í fæðingarorlofi Bjargar Ágústsdóttur, mun flytja sig um set yfir í Snæfellsbæ um mánaðamótin mars/apríl og taka við starfi bæjarrita í eitt ár. Björg mun koma aftur til starfa í byrjun maí.   Friðbjörg Matthíasdóttir skrifstofustjóri, hefur ákveðið að koma ekki til starfa þegar fæðingarorlofi hennar lýkur 1. maí nk. Henni eru færðar þakkir fyrir samstarfið. Í hennar stað hefur Björn Steinar Pálmason verið ráðinn skrifstofustjóri en hann hefur gegnt starfinu frá miðju síðasta ári.

4. fl. karla í úrslit

4. flokkur karla tók þátt í riðlakeppni íslamdsmótsins í fótbolta á sunnudaginn. Strákarnir sigruðu riðilinn sem er hreint frábær árangur og fara þeir því í úrslitakeppnina sem verður á Akranesi 14.febrúar. Fyrsti leikur þeirra var við Selfoss og endaði hann 4-4,þá var komið að Keflavík og vannst sá leikur 2-5,leikurinn á móti Njarðvík fór einnig 2-5 fyrir okkar strákum,Grundarfjörður – Víðir/Rynir fór 4-3,við unnum FH 4-2 og síðasti leikurin var á móti Víking R og fór hann 2- 0 fyrir okkar strákum. Frábær árangur þetta.  

Byggingaframkvæmdir að hefjast við Fjölbrautaskólann

Eignarhaldsfélagið Jeratún ehf., sem sér um húsnæðimál Fjölbrautaskóla Snæfellinga hefur undirritað verksamning við Loftorku um gerð sökkuls og botnplötu nýbyggingar skólans.  Vegna stöðu hönnunar var einungis samið um þennan verkhluta nú.    Jafnframt var undirrituð viljayfirlýsing um að Loftorka annist áframhaldandi byggingaframkvæmdir við skólann.  Starfsmenn Loftorku eru þegar byrjaðir að undirbúa verkið.  Samið var um lok þessa verkhluta Fjölbrautaskólans þann 20. mars nk.    

Íbúðarhúsnæði óskast til leigu

Grundarfjarðarbær óskar eftir að taka á leigu íbúðarhúsnæði, til langs tíma, sem framleigt yrði starfsmönnum sveitarfélagsins.   Nánari upplýsingar gefur skrifstofustjóri í síma 430 8500 

Fundargerð bæjarstjórnar 22. janúar 2004.

Fundargerð bæjarstjórnar 22. janúar 2004 er komin á vefinn undir flipanum "Stjórnsýsla" -> "Fundargerðir".   BSP

Bæjarstjórnarfundur

 Aukafundur verður haldinn í bæjarstjórn Grundarfjarðar fimmtudaginn 22. janúar kl. 17:00 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Á dagskrá eru mótmæli iðnaðarmanna á Snæfellsnesi vegna samnings um byggingu framhaldsskóla.   Bæjarstjóri

Íslandsmóti hjá 3. og 4. flokki kvenna lokið

Þá hafa stelpurnar lokið keppni á íslandsmótinu í knattspyrnu innanhúss.  4. flokkur spilaði í valsheimilinu og gekk frábærlega vel.  3. flokkur spilaði í Digranesi, þeim gekk ekki eins vel en öðluðust dýrmæta og góða reynslu.