Tilkynning frá meistaraflokksráði UMFG

Síðastliðið sumar hófst vinna við að endurvekja meistaraflokk UMFG í knattspyrnu af löngum dvala en í Grundarfirði hefur ekki verið boðið upp á meistaraflokk síðan 1987.   Eftir að Snæfell í Stykkishólmi hætti í vor, þá var enginn möguleiki fyrir menn að leggja stund á alvöru fótbolta, nema sækja æfingar hjá utandeildarliðum fyrir sunnan.  Víkingur Ólafsvík spilar á allt öðru og hærra plani, og er meiningin að UMFG geti í framtíðinni stutt við það góða starf sem unnið er í Ólafsvík.  Leikmenn hefðu þá tækifæri til að spila alvöru leiki í neðrideildum í stað þess að hætta iðkuninni í kringum bílprófsaldurinn.   Ætlunin er að skrá liðið til leiks á Íslandsmóti KSÍ 2010 og stefnt er að því að leikmannahópurinn telji 25-30 manns svo öruggt sé að það náist í lið yfir sumarleyfismánuðina.  Æfingar verða tvisvar í viku í vetur í íþróttahúsi Grundarfjarðar og þjálfaramál eru í skoðun.  Leikmenn verða allir áhugamenn og þurfa að standa straum af kostnaði að mestu leiti sjálfir.  Meistaraflokksráð mun þó reyna að afla stuðnings til að lágmarka kostnað leikmanna við þátttökuna.   Von okkar er sú að Grundfirðingar og aðrir nær og fjær styðji þétt við bakið á okkur og hvetji okkur duglega, þegar við göngum út á völlinn næsta vor.   Búið er að mynda meistaraflokksráð sem mun halda utan um alla starfsemi liðsins.   Baldur Orri Rafnsson Kári Pétur Ólafsson Jón Frímann Eiríksson Tómas Freyr Kristjánsson Gústav Alex Gústavsson Árni Friðjón Árnason  

Icesave mótmælt í Grundarfirði

Af vef Skessuhorns   Fjörutíu manns voru með hávær mótmæli í miðbæ Grundarfjarðar klukkan 12 í dag. Vildi fólkið sýna samstöðu en á sama tíma voru mótmæli annarsstaðar á landinu, meðal annars í Reykjavík og Akureyri þar sem fyrirhuguðum Icesave samningum var mótmælt. “Hávaðinn var ærandi, meðal annars notast við kúabjöllur, trommur og lúðra. Þá voru bílflautur þeyttar óspart. Þetta hlýtur að hafa heyrst suður á Austurvöll,” sagði Jónas Guðmundsson íbúi í Grundarfirði í samtali við Skessuhorn. Áhugafólk um réttlátan og löglegan Icesave samning heldur því fram að samningurinn sem slíkur muni kosta hvern Íslending að minnsta kosti milljón króna. Til stendur að Alþingi afgreiði ríkisábyrgð vegna Icesafe samningsins í dag.

Tíuþúsundasti gesturinn

  Aðsókn í Sögumiðstöðina í Grundarfirði hefur slegið öll met í sumar og síðastliðinn föstudag kom tíuþúsundasti gesturinn í hús.  Það var Katrin Hofstetter frá Kempten í Bæjaralandi í Þýskalandi.  Hún var á ferðalagi um Ísland ásamt manni sínum Maximilian Kahrs.  Í tveggja vikna ferðalagi, kusu þau að verja einni viku á Snæfellsnesi, ferðuðust með rútum og nutu þess að gefa sér góðan tíma á hverjum stað.  Í Grundarfirði voru þau í þrjá daga og gistu í íbúð á vegum Farfuglaheimilisins, fóru í gönguferðir, m.a. í kringum Kirkjufell og voru alsæl með dvölina. Það vekur nokkra athygli að aukninginn deyfist nokkuð jafn yfir sumarið og er áþekk meðal erlendra gesta og Íslendinga.   

Fólkið, Fjöllin, Fjörðurinn.

Bókin Fólkið Fjöllin, Fjörðurinn er komin út og munu félagar úr félagi eldriborgara ganga í hús á næstunni og bjóða hana til sölu sjá nánar hér.  

Gunda Nygård heilsugæslulæknir kveður

Gunda Nygård er að hætta störfum sem heilsugæslulæknir í Grundarfirði.  Hún og eiginmaður hennar, Lars Nygård eru að flytja til Danmerkur þar sem Gunda tekur við stöðu læknis í bæ sem heitir Lesö.  Hrun krónunnar og sameining heilbrigðisstofnana á Vesturlandi eru helstu ástæður þess að Gunda ákvað að hætta núna.  Gundu verður örugglega saknað hér í Grundarfirði þar sem hún hefur starfað í fjögur ár og átta ár samtals á Snæfellsnesi.  Gundu eru færðar  færðar þakkir fyrir góð störf hér.  Þeim hjónum er óskað velfarnaðar í nýjum heimkynnum og bjartri framtíð.

Breyttur opnunartími sundlaugar

Opnunartími sundlaugar verður sem hér segir : Alla virka daga er opið frá 7-8 og 16-19,  laugardaga er opið frá 13-17 og lokað á sunnudögum.

Námskeið fyrir konur um stofnun og rekstur fyrirtækja

Brautargengi í Borgarnesi Námskeið fyrir konur um stofnun og rekstur fyrirtækja   Impra nýsköpunarmiðstöð gengst nú í þrettánda sinn fyrir svokölluðum Brautargengisnámskeiðum á landsbyggðinni. Haustið 2009 er áætlað að halda námskeiðið á tveimur stöðum á landinu, þ.e. í Borgarnesi og Akureyri. Alls hafa yfir sjö hundrað konur víðs vegar um land lokið Brautargengisnámskeiði frá upphafi.  

Vetrartími á Bókasafni Grundarfjarðar

Rétt er að minna á að í dag 17. ágúst hefst vetrartíminn sem er mánudaga til fimmtudaga kl. 15-18. Kíkið á vefsíðu bókasafnsins og skoðið nýjar áherslur og ábendingar. 

Leikskólinn Sólvellir er kominn á fullt eftir sumarfrí og Grunnskóli Grundarfjarðar verður settur 25. ágúst n.k.

Leikskólinn Sólvellir hefur verið opnaður á ný eftir sumarfríið.  Börnin eru flest mætt í skólann hress og kát.  Umsóknum um leikskólavist hefur fjölgað frá því sem gerð var ráð fyrir og er það ánægjuleg þróun.   Grunnskóli Grundarfjarðar hefur birt auglýsingu í Vikublaðinu um skólasetningu þriðjudaginn 25. ágúst n.k.  Setningin hefst kl. 17.00 í íþróttahúsinu.  Víst er að börnin bíða þess óþreyjufull að geta hafið nám og starf í skólanum að nýju eftir góða hvíld í sumar.  

Kristín Björg ráðin til Símenntunarmiðstöðvarinnar.

Kristín Björg Árnadóttir hefur verið ráðin í 30% starfshlutfall hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi frá og með 1. ágúst sl. en hún hefur aðsetur í Átthagastofunni í Snæfellsbæ.