Hugleiðingar bæjarstjóra við áramótin 2007-2008

 Við áramótin er hollt að líta um öxl og skoða atburði ársins.  Margt gott og jákvætt hefur komið fram á árinu en einnig er eitthvað sem hefði getað verið betra eins og gengur.  Bæjarstjórinn hefur sett á blað nokkrar hugrenningar á þessum tímapunkti sem má skoða hér.

Hreinsum upp skotköku- og flugeldaruslið

Þó veðurspáin sé ekki góð til flugeldaskothríðar á gamlárskvöld er við því að búast að margir muni reyna að koma púðrinu í loftið.  Það eru vinsamleg tilmæli bæjarstarfsmanna að allir hreinsi upp ruslið sem verður eftir skotkökur og slíkan búnað.  Það er miklu skemmtilegra að sjá bæinn hreinan á nýársdag heldur en alsettan pappakössum og drasli eftir gamlárskvöldið. 

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2008

 Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 18. desember sl. var tillaga að fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 tekin til síðari umræðu og afgreiðslu.  Fjárhagsáætlunin var samþykkt og hægt er að skoða rekstraryfirlit hennar með því að smella hér.

Nýr aðalbókari/ritari til starfa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar

Nú í desember tók nýr aðalbókari/ritari til starfa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Nýi aðalbókarinn er Kristín Pétursdóttir sem starfað hefur um hríð sem þjónustufulltrúi á skrifstofunni.  Kristín er þ.a.l. ekki ókunnug vinnuumhverfinu og mun það nýtast henni vel í byrjuninni.  Kristín lauk námi til löggildingar sem bókari nú desember.  Kristín tekur við af Andrési B. Andreasen sem hefur gegnt starfinu í eitt ár, en hverfur nú til starfa hjá Reykjavíkuborg.  Um leið og Kristín er boðin velkomin í nýtt starf eru Andrési þökkuð góð störf í þágu Grundarfjarðarbæjar.  

Starf þjónustufulltrúa

Grundarfjarðarbær auglýsir starf þjónustufulltrúa á skrifstofu bæjarins laust til umsóknar.   Þjónustufulltrúi annast öll almenn skrifstofustörf, svo sem móttöku og afgreiðslu erinda, símsvörun, ljósritun, innskráningu reikninga, aðstoð við viðhald á heimasíðu sveitarfélagsins, aðstoð og upplýsingagjöf til íbúa og annarra,   meðferð fundagagna og aðstoð við undirbúning funda.  Vinnutími er á opnunartíma skrifstofunnar, þ.e. mánudaga til fimmtudaga kl. 09.30 - 15.30 og föstudaga kl. 09.30 - 14.00.  

Akstur á vélsleðum yfir íþróttavöllinn er óheimill

Nokkuð hefur borið á því eftir að við fengum snjóinn að vélsleðamenn aki yfir íþróttavöllinn á vélfákum sínum.  Því er eindregið beint til þeirra sem aka um á vélsleðum að láta íþróttavöllinn í friði.  Akstur á vellinum getur valdið skaða á honum og það er óþarfi að lenda í slíku.  Stöndum saman um að verja íþróttavöllinn fyrir öllum skemmdum. 

Fimmta útskrift Fjölbrautaskóla Snæfellinga

 Af heimasíðu Skessuhorns: Ísak Hilmarsson Föstudaginn 21. desember útskrifaði Fjölbrautaskóli Snæfellinga ellefu nemendur  með stúdentspróf, þar af luku 6 nemendur stúdentsprófi á þremur og hálfu ári. Við upphaf útskriftarathafnar fluttu Hólmfríður Friðjónsdóttir, kennari við skólann og Diljá Dagbjartsdóttir, nemandi nokkur jólalög á flygil og þverflautu. Síðar við athöfnina flutti Viktoria Kay, nýstúdent Preludiu í C-major eftir Johan Sebastian Bach á flygilinn. Valgerður Ósk Einarsdóttir dönskukennari kvaddi nýstúdenta fyrir hönd starfsfólks skólans og því næst flutti Ísak Hilmarsson, nýstúdent kveðjuávarp til starfsfólks. Að lokum veitti Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Birni Ásgeiri Sumarliðasyni viðurkenningu fyrir störf sín á þágu Nemendafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga en hann var fyrsti forseti þess.

Viðurkenning til Kvenfélagsins Gleym mér ei

Kvenfélagið  Gleym-mér ei í Grundarfirði fagnar í ár 75 ára afmæli félagsins.  Á jólafundi félagsins fimmtudaginn 6. desember sl. afhenti Þorey Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, Mjöll Guðjónsdóttur, formanni kvenfélagsins, viðurkenningarskjal frá bæjarstjórn.  Í skjalinu stendur  „Kvenfélagið Gleym mér ei 1932-2007.  Viðurkenning og þakkir fyrir ómetanleg störf að samfélagslegum málefnum  og fórnfýsi  félagskvenna í þágu samborgaranna í 75 ár.“   Nokkrar myndir frá jólafundinum og afhendingu viðurkenningarskjalsins eru hér

Vel heppnaðir jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir sunnudaginn 16. desember sl. í húsnæði Félagsmiðstöðvarinnar Eden.  Tónleikarnir voru afar vel sóttir og var húsið yfirfullt.  Nemendur og kennarar tónlistarskólans léku margvísleg lög fyrir gesti  við góðar undirtektir í huggulegri stemmingu yfir súkkulaðibolla og smákökum.   Nokkrar myndir frá tónleikunum má nálgast hér. 

Jólaandi hjá starfsfólki leikskólans

Starfsfólk leikskólans Sólvalla afþakkaði jólagjöf frá Grundarfjarðarbæ en mun í staðinn gefa andvirði gjafanna til góðs málefnis.