Íbúakönnun 2013

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi standa fyrir íbúakönnun á Vesturlandi, líkt og þeir hafa gert á þriggja ára fresti frá árinu 2004. Í þessari könnun hafa íbúar verið spurðir um ýmis álitamál sem tengjast þjónustu og aðstæðum þar sem þeir búa. Niðurstöður og upplýsingar könnunarinnar hafa reynst mikilvægar varðandi hvað betur mætti fara varðandi þjónustu við íbúa. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í könnuninni.

Sumarnámskeið fyrir börn fædd 2002-2007

Nú er byrjað að taka við skráningum á sumarnámskeið fyrir börn fædd 2002 - 2007. Í boði eru fjölbreytt námskeið og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Ólöf Rut Halldórsdóttir og Herdís Lína Halldórsdóttir munu sjá um námskeiðin. Skráningareyðublöð er hægt að nálgast á bæjarskrifstofunni og einnig hér á vef Grundarfjarðarbæjar undir "gott að vita". Nauðsynlegt er að skráningum sé skilað á bæjarskrifstofuna fyrir upphafsdag hvers námskeiðs. Hér má nálgast Lista yfir námskeiðin og skráningareyðublöð.

Aðalfundir Eyrbyggju-Sögumiðstöðvar og Blöðruskalla

Aðalfundir sjálfseignarstofnunar um Eyrbyggju – Sögumiðstöð og Blöðruskalla, sögufélags verða haldnir miðvikudaginn 12. júní 2013 kl. 20.00 í Sögumiðstöðinni, Grundargötu 35.  

Fjölbrautaskóli Snæfellinga auglýsir eftirfarandi stöður:

Stuðningsfulltrúi við starfsbraut FSN í Grundarfirði 100% staða. Stuðningsfulltrúi við starfsbraut FSN í Grundarfirði  50% staða.     Laun greiðast samkvæmt kjarasamningi SFR og ríkisins. Stuðningsfulltrúi við starfsbraut FSN í Grundarfirði vinnur undir stjórn deildarstjóra. Ráðið er í stöðuna frá 15. ágúst 2013 til 15. maí 2014. Leitað er að einstaklingum sem hafa góða skipulagshæfileika, eru liprir í samskiptum og geta unnið sjálfstætt. Umsóknir með ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf skulu hafa borist Jóni Eggerti Bragasyni skólameistara á netfangið joneggert@fsn.is. Einnig er hægt að senda umsóknir í pósti: Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Grundargötu 44, 350 Grundarfirði. Umsóknarfrestur er til 13. júní 2013. Umsóknir þurfa ekki að vera á sérstökum eyðublöðum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Nánari upplýsingar veitir skólameistari á netfanginu joneggert@fsn.is eða í síma  4308400/8917384. Á vef skólans www.fsn.is má einnig finna ýmsar upplýsingar um skólann. Skólameistari  

Fjölmennur og málefnalegur íbúafundur

Grundfirðingar mættu vel á íbúafund sem haldinn var þriðjudagskvöldið 14. maí, en um 50 manns sátu fundinn.  Þar voru kynnt helstu mál og urðu síðan umræður í kjölfarið.  Á þessu kjörtímabili hefur bæjarstjórn haldið íbúafundi vor og haust og var fundurinn sá fjölmennasti til þessa.  

Blóðsöfnun

Blóðbankabíllinn verður við Samkaup Úrval miðvikudaginn 29. maí. kl.10-13. Sjá auglýsingu hér. 

Útskrift Fjölbrautaskóli Snæfellinga

Laugardaginn 18. maí brautskráðust 13 nemendur frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Af félagsfræðabraut brautskráðust þau Anna Júnía Kjartansdóttir, Elísabet Kristin Atladóttir, Guðrún Björg Guðjónsdóttir, Jóhanna Jóhannesdóttir, Jón Ólafur Jónsson, Katrín Sara Reyes, Sandra Dröfn Thomsen og Sunna Rós Arnarsdóttir. Af starfsbraut brautskráðust 2 nemendur, þeir Bjargmundur Hermann Sigurðsson og Sigurður Fannar Gunnsteinsson. Af náttúrufræðibraut brautskráðust Brynja Aud Aradóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir og Ólöf Birna Rafnsdóttir.  Einnig fékk einn nemandi, Dóra Aðalsteinsdóttir sem var að ljúka námi til sjúkraliða frá Verkmenntaskóla Austurlands afhent útskriftarskýrteini sitt við athöfnina.  

Köttur í óskilum

Þessi köttur er í óskilum hjá Áhaldahúsinu. Eigandi er beðinn um að vitja hans þar eða hringja í síma 691-4343.   Ýta á myndina til að fá upp stærri mynd.

Fjarmenntaskólinn

Sjö framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa ákveðið að bjóða sameiginlega upp á fjarnám með áherslu á starfsnám.  Um er að ræða Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra, Menntaskólann á Tröllaskaga, Framhaldsskólann á Húsavík, Menntaskólann á Egilsstöðum, Verkmenntaskóla Austurlands og Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu.  Í vor verður áhugi kannaður á námi á 15 námsbrautum og í kjölfarið tekin ákvörðun um hvað verði í boði á haustönn.  Námið fer fram með stuttum staðbundum lotum og í fjarnámi.  Miðað er við að hægt sé að taka námið samhliða vinnu.

Skemmtiferðaskip sumarið 2013

Í sumar munu 11. skemmtiferðaskip leggja í Grundarfjarðarhöfn Hér er listi yfir þau skip og komutíma þeirra.