Grundfirðingar sigursælir

Stórt Boccia mót var haldið í Grundarfirði um síðustu helgi. 13 lið mættu til leiks; 4 úr Grundarfirði, 5 úr Borgarnesi, 2 úr Snæfellsbæ og 2 úr Stykkishólmi. Mótið tókst í alla staði mjög vel og endaði svo að Grundfirðingar nældu sér í gull- og silfurverðlaun. Sigurliðið skipa þau Halldór Guðmundsson, Ólöf Pétursdóttir og Hjörtur Óli Halldórsson.  

Samferða- Styrktar- og minningatónleikar

  Þriðjudaginn 30. mars kl. 20:30 verða haldnir styrktar og minningatónleikar fyrir fjölskyldu Valdimars og Jóns Þórs. Tónleikarnir verða í Fíladelfíu, Hátúni 2. Ákveðið hefur verið að hafa beina útsendingu frá tónleikunum  í fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði og í Allanum á Siglufirði. 

20 Snæfellingar útskrifast úr átthaganámi

Laugardaginn 27. mars var útskrifað af námskeiðinu „Átthaganám á Snæfellsnesi, svæðisþekking og upplýsingamiðlun“. Útskriftin var með óhefðbundnu móti, hópurinn fór í rútu hringinn í kringum Snæfellsjökul og skiptust þátttakendur á að segja frá því sem fyrir augu bar. Þetta var hin mesta skemmtun og fróðlegt mjög að auki. Hin eiginlega útskrift fór svo fram á Hótel Búðum að ferð lokinni. 

Opnunartími sundlaugar um páskana

Sundlaug Grundarfjarðar verður opin sem hér segir um páskana.   Miðvikudagur 31. mars: 13:00 - 17:00 Skírdagur 1. apríl:          13:00 - 17:00 Föstudagurinn langi:      13:00 - 17:00 Laugardagur 3. apríl:     13:00 - 17:00 Páskadagur:                   Lokað Annar í páskum:             13:00 - 17:00

Útskrift

Skrifstofuskólinn var með sína fyrstu útskrift þann 27. mars og voru það alls 19 nemendur sem útskrifuðust eftir 6. mánaða nám. Kennt var í fjölbrautarskóla Snæfellinga en  námskeiðið var á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Námið fólst í tölvukennslu, upplýsingatækni, verslunarreikningi, bókhaldi, ensku, sjálfstyrkingu og ýmsum öðrum námsþáttum. Hér má sjá útskriftarhópinn.  

Ferðafélag Snæfellsness heldur aðalfund

Mánudaginn 29. mars verður haldinn aðalfundur hjá Ferðafélagi Snæfellsness. Fundurinn er haldinn í Sögumiðstöðinni og hefst klukkan 20:00. 

Sigruðu í forritunarkeppni

Tekið af mbl.is þann 28.3.2010   Sigurlið Alpha-deildarinnar en í þeirri deild kepptu þeir sem hafa stundað forritun umfram það sem kennt er í skólum. Með sigurliðinu eru þeir Björn Þór Jónsson, starfandi forseti tölvunarfræðideildar HR, og Emil G. Einarsson framkvæmdastjóri sölusviðs Nýherja.     Tækniskólanemarnir Sveinn Fannar Kristjánsson og Jónatan Óskar Nilsson höfnuðu í fyrsta sæti í Alpha-deild forritunarkeppni framhaldsskólanna en auk þeirra var Gabríel Arthúr Pétursson í sigurliðinu. Hann er nemandi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  

Blakmót

Hið árlega skírdagsmót í blaki verður fimmtudaginn 1.4.2010 kl. 11.00 Sjá auglýsingu hér. 

Sundlaugin verður opnuð eftir helgi

Verið er að yfirfara tæknilegan búnað í sundlaug Grundarfjarðar og undirbúa hana fyrir opnun eftir vetrardvalann.  Vonast er eftir góðu veðri um páskana og að sundlaugin verði þá komin í fulla notkun.  Opnunartími verður auglýstur nánar síðar. 

Fjáröflun 9. bekkjar stendur yfir

Nemendur 9. bekkjar standa nú í ströngu við að safna fé í ferðasjóð. Ekki hefur enn verið ákveðið hvert skal halda en víst að það verður innanlands. Krakkarnir hafa verið dugleg að safna dósum og einnig hafa þau steikt og selt kleinur við góðar undirtektir. Föstudaginn 26. mars verður hópurinn með kökubasar í anddyri Samkaupa, og hefjast herlegheitin kl. 14:00.