Mynd: RÚV
Mynd: RÚV

Föstudaginn 24. mars nk. verða 100 ár frá fæðingu Bærings Cecilssonar, ljósmyndara. Af því tilefni verður opið hús í Bæringsstofu í Sögumiðstöðinni kl. 17:30 þar sem minningu og myndum Bærings verða gerð skil. Verið öll hjartanlega velkomin!

Bæring

Bæring Cecilsson (1923-2002) var fæddur að Búðum í Eyrarsveit, við norðanvert Kirkjufell. Bæring tók ógrynni ljósmynda af náttúru og mannlífi í Eyarsveit og víðar. Síðar tók hann einnig kvikmyndir.  Ásamt því að vera áhugaljósmyndari, rak Bæring vélsmiðju og starfaði sem fréttaljósmyndari fyrir Sjónvarpið og ýmis dagblöð. Vegna þess mikla menningararfs, sem felst í myndum Bærings, var hann gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 1997. Eftir andlát hans færðu skyldmenni hans Grundarfjarðarbæ myndasafn hans til varðveislu og vinnslu. Sjá nánar hér.

Myndirnar 

Fyrir allmörgum árum var hafist handa við að skanna ljósmyndir Bærings, auk þess sem kvikmyndum hans var komið yfir á VHS og síðar stafrænt form í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands.  Sumarið 2020 hófst átak á vegum Grundarfjarðarbæjar við að skanna filmur að ljósmyndum Bærings Cecilssonar. Unnið hefur verið að því að koma myndunum á varanlegt, geymslu- og birtingarhæft form. Verður fæðingardagur Bærings nýttur til að kynna afrakstur þeirrar vinnu sem fram hefur farið, þó enn sé mikið verk óunnið. 

Dagskrá þann 24. mars 

Á opnu húsi á fæðingardegi Bærings verður kynntur afrakstur af vinnu við skönnun á myndasafni hans, fyrr og nú, og vinna við að gera myndirnar aðgengilegar almenningi. Valdar ljósmyndir Bærings verða til sýnis og lífshlaupi Bærings verða gerð skil. Að sjálfsögðu verður síðan boðið uppá kaffi og meðlæti. 

Verið öll hjartanlega velkomin!