Í dag, 9. október 2020, eru 100 ár frá fæðingu Guðmundar Runólfssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, frá Grundarfirði. Á níræðisafmæli Guðmundar árið 2010 útnefndi bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hann heiðursborgara Grundarfjarðar. Var það gert til að sýna honum þakklæti fyrir lífsstarf hans og framlag til byggðar og mannlífs í Grundarfirði. 

Guðmundur Runólfsson var fæddur í hjáleigunni Stekkjartröð í Eyrarsveit. Ársgamall flutti hann með foreldrum sínum í Grafarnes þar sem foreldrar hans hófu búskap. Sem ungur maður hafði Guðmundur ákveðið að verða bóndi, en hugur hans snerist til sjómennsku og síðar útgerðar, sem varð lífsstarf hans. Níu ára gamall fór hann með föður sínum á skakskútu frá Stykkishólmi og upplifði því lokin á skútuöldinni, en síðan tók vélbátaöldin við. 

Útgerðarsaga Guðmundar hófst árið 1947, þegar útgerðarfélagið Runólfur hf. var stofnað utan um rekstur trébáts, Runólfs SH-135 þar sem Guðmundur var skipstjóri til ársins 1955. Árið 1975 kom hingað skuttogarinn Runólfur SH-135 og var það fyrsti skuttogarinn við Breiðafjörð. Árið 1974 var Guðmundur Runólfsson hf. stofnað sem í dag gerir út togarana Hring SH 535 og Runólf SH 135 og rekur einnig fiskvinnslu og netaverkstæði. 

Guðmundur var ekki alltaf einn að verki. Þegar hann var að hefja útgerð tóku fleiri frumkvöðlar þátt í því með honum að láta smíða báta og á síðari árum í þessari ríflega 60 ára sögu útgerðarinnar hafa börn Guðmundar tekið við rekstrinum. 

Það er ekki hægt að minnast á Guðmund án þess að nefna eiginkonu hans, Ingibjörgu Kristjánsdóttur. Inga og Guðmundur giftu sig 1947, byggðu sér heimili í Grundarfirði og áttu 9 börn, en eitt andaðist í bernsku. Þau hjón voru einstaklega samhent, Inga var stoð og stytta og samverkamaður bónda síns og átti ekki síður þátt í góðu gengi útgerðarinnar. 

Á barnsaldri varð Guðmundur vitni að því hvernig þorp verður til. Seinna meir tók hann þátt í þeirri uppbyggingu sjálfur. Í viðtali við Guðmund sem tekið var af Ásgeiri Guðmundssyni, ritara sögu Eyrarsveitar árið 1985, segir Guðmundur: „...ég man eftir allri þessari uppbyggingu og hef tekið líka talsverðan þátt í henni. Ég verð að segja að hún hefur verið og er mjög ánægjuleg og er gaman að taka þátt í svona örri, mikilli og frjósamri uppbyggingu. Hér hafa skiptst á skin og skúrir, en það gleðilegasta af þessu öllu saman er það, að harðgerðasta og dugmesta fólkið stendur þetta af sér, þannig að ég hef trú mikla á þessu kjarnafólki, sem kemur til með að standa af sér smá hretin og smá krepputímabilin.” Það eru góð skilaboð, ekki síst á þessum sérstöku tímum sem nú eru.

Hér má lesa ágrip af merkilegu lífshlaupi Guðmundar, tekið saman í október 2010.

Tveir einstaklingar aðrir hafa verið gerðir að heiðursborgurum, Kristján Þorleifsson sem hér var hreppsstjóri um langt skeið og Bæring Cecilsson, ljósmyndari og vélstjóri.