Skessuhorn 22. febrúar 2010:

Um hundrað Vestlendingar mættu á þjóðfund sem haldinn var í Borgarnesi á laugardaginn. Fundurinn var liður í fundaröð sem forsætisráðuneytið stendur fyrir og fjallar um Sóknaráætlun 20/20 en í því felst að draga fram styrkleika og sóknarfæri þjóðarinnar og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Hrefna B. Jónsdóttir framkvæmdastjóri SSV sá um boðun á fundinn. Hún segir mikla vinnu hafa legið á bak við boðunina, en viðtökur þeirra sem valdir voru með handahófskenndu úrtaki úr þjóðskrá voru fremur dræmar. “Við sendum út 300 bréf samkvæmt úrtaki úr þjóðskrá og það skiluðu sér aðeins 30 af þeim. Við fórum því í að hringja út til að ná því takmarki okkar að fá 80-90 þátttakendur, en grunnurinn var hópur sem var handvalinn auk um 10 starfsmanna ráðuneyta.”

Hrefna segir víða hafa verið komið við í umræðuhópum en skipt var niður í 11 hópa og hver þeirra valdi sér fimm viðfangsefni að fjalla um. “Hver hópur kaus sér fimm viðfangsefni sem snerta atvinnulíf. Ég get nefnt sem dæmi að víða var fjallað um sjávarútveg og til dæmis aðgengi fólk að veiðum og vinnslu. Þá voru margir staðir nefndir eins og Snæfellsjökull, Reykholt, Grundartangi og Björgunarskólinn á Gufuskálum. Fornsögurnar okkar og kynning þeirra inn í ferðaþjónustuna komu víða við sögu og svona er lengi hægt að telja,” segir Hrefna.

 

Í framhaldinu verður unnið úr niðurstöðum allra fundanna á landinu og gefin út samantekt. Nú á eftir að halda fundi á Akureyri, Selfossi, í Reykjanesbæ og Reykjavík.