11. Stjórnarfundur Eyrbyggja 26. júní 2000.

Viðstaddir: Elinbjörg Kristjánsdóttir, Sigurður Hallgrímsson, Halldóra Karlsdóttir, Freyja Bergsveinsdóttir, Hildur Mósesdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Hermann Jóhannesson, Gísli Karel Halldórsson

1. Freyja Bergsveinsdóttir, grafískur hönnuður, var boðin velkomin á stjórnarfundinn. Freyja hannaði útlit og uppsetningu bókarinnar sem við erum að gefa út. Einnig hannaði hún merki Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, sem við munum nota á útgáfuna og á ný bréfsefni.

 

2. Lögð var fram fyrsta prentun af bókinni ,,Fólkið, fjöllin, fjörðurinn”.  Bókin mun verða um 200 bls. Björg Ágústsdóttir sveitarstjóri fær eintakið á miðvikudaginn til skoðunar fyrir sögunefndina. Eftir er að prófarkalesa bókina og leiðrétta misfærslur. Verður gert með hraði.

 

3. Rætt var um dreifingu á bókinni og söluaðila. Stjórnin vill gjarnan að einn aðili taki að sér alla dreifingu, bæði heimafyrir og símsölu eftir listunum yfir fermingarárgangana. Gert er ráð fyrir að söluverð verði 2300 kr. Dreifingaraðili fái 300 kr fyrir hvert eintak, en 2000 kr fari til að standa undir útgáfunni. Saumaklúbburinn Nálin í Grundarfirði mun taka að sér dreifingu á bókinni, en það eru: Bryndís Theódórsdóttir, Olga Sædís Aðalsteinsdóttir, Guðbjörg Jenný Ríkharðsdóttir, Hjördís Jónsdóttir, Júlíana Karlsdóttir og Ólafía Hjálmarsdóttir.

 

4. Hildur lagði fram pappíra fyrir stjórnina til undirritunar þannig að Eyrbyggjar geti sótt um kennitölu og bankareikning.

 

5. Stjórnin samþykkti samhljóða að Hildur Mósesdóttir yrði gjaldkeri félagsins.

 

6. Gísli sagði frá viðræðum við Svavar Sigmundsson forstöðumann Örnefnastofnunar og Örn Arnar Ingólfsson hjá Loftmyndum um skrásetningu örnefna í Eyrarsveit. Vilji er til að gera samning milli Eyrbyggja, Örnefnastofnunar og Loftmynda um að Loftmyndir leggi til myndir sem nota má til að skrá og staðsetja örnefni. Eyrbyggjar munu reyna að virkja staðkunnuga til að skrásetja örnefni. Örnefnastofnun mun skrá örnefnin inn á stafrænan kortagrunn og Loftmyndir hf gætu gefið út stafræn kort með réttum örnefnum. Gísli hefur þegar pantað sex loftmyndir í lit í stærðinni 50x50 sm. Loftmyndirnar verða plastaðar. Þær verða tilbúnar síðar í þessari viku. Þær verða hengdar upp til sýnis á ársfundi Eyrbyggja í Grundarfirði 29. júlí. Á þeim fundi verður leitað eftir tilnefningum í vinnuhópa um skrásetningu örnefna. Áformað er að Örnefnastofnun í samvinnu við Eyrbyggja muni standa fyrir fyrirlestri og opnum fundi í Grundarfirði í haust um örnefnaskráningu. Það gæti verið góð byrjun og hvatning fyrir vinnuhópana um örnefnaskráningu.

 

7. Samþykkt að Gísli semji stutta tilkynningu til birtingar í Þey þar sem sagt verði frá ársfundi Eyrbyggja og dagskrá fundarins.

 

8. Hildur varpaði fram þeirri hugmynd að við létum sauma merki Eyrbyggja í ,,flís” húfur og kæmum þeim á markað á Grundarfjarðarhátíðinni. Hugmyndinni var vel tekið. Hildur mun senda á morgun í tölvupósti upplýsingar til stjórnarmanna um kostnað við húfurnar. Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um framleiðslu.

 

9. Ólafur Hjálmarsson hefur rætt við eigendur gamla Kaupfélagshússins um varðveislu á tjakknum sem notaður var til að lyfta efri hæð Kaupfélagsins árið 1958. Eyrbyggja munu afhenda sögunefnd Eyrarsveitar tjakkinn með viðhöfn á Grundarfjarðargleðinni. Eigendur Kaupfélagshússins hafa tekið að sér að varðveita hann á heppilegum stað. Ólafur mun útbúa stað fyrir tjakkinn í samvinnu við eigendur gamla Kaupfélagshússins.

 

10. Hermann sýndi smíði bókar úr riðfríu stáli sem Jón Hans Ingason frá Grundarfirði gerði. Opnu bókarinnar má nota sem skilti undir kynningarefni. Hermann sagði frá tækni við að koma myndum eða texta inn í opnu bókarinnar undir glæru lakki, og  getur þá skiltið staðið úti á víðavangi. Freyja stakk upp á því að merki Eyrbyggja yrði sett í bókarhornið og yrði stálbókin og merkið einkennandi fyrir Eyrbyggja. Hugmynd Freyju var vel tekið. Freyja og Hermann munu stilla upp skilti með frásögn af ,,tjakknum”. 

11. Næsti stjórnarfundur verður í Grundarfirði föstudaginn 28. júlí kl 20 í Krákunni uppi. Fundurinn   verður undirbúningsfundur fyrir ársfundinn, sem verður laugardaginn 29. júlí.