Úr fréttatilkynningu Mílu, 11. júlí 2023:

Framkvæmdum Mílu við lagningu ljósleiðara í Grundarfirði þetta árið er að mestu lokið. Aðeins tengivinnan er eftir og er áætlað að ljúka þeirri vinnu í ágúst. Þar með verða tengingar til um 110 heimila í viðbót tilbúnar til notkunar og geta íbúar haft samband við sitt fjarskiptafyrirtæki þegar líða fer á ágúst og pantað hjá þeim þjónustu um ljósleiðara Mílu. Hvað varðar frágang eftir framkvæmdirnar þá verður farið í lagfæringar á götum og gangstéttum á næstu vikum, en búið er að ráða verktaka sem mun sjá um að malbika eða steypa í þar sem brjóta þurfti upp til að koma lögnum fyrir.

Fyrir hafði Míla lagt ljósleiðara til um 120 heimila og verða því um 230 heimili í Grundarfirði komin með möguleika á að nýta sér ljósleiðaratengingu frá Mílu fyrir lok sumars, auk þess sem ljósleiðari hefur verið lagður til fjölda fyrirtækja í Grundarfirði.

Áætlanir Mílu gera ráð fyrir að ljúka lagningu ljósleiðara til allra heimila í Grundarfirði á næsta ári, 2024. Framkvæmdirnar eru meðal annars þáttur í útskiptingu á koparkerfi Mílu, en Míla mun tilkynna notendum um það þegar nánari ákvörðun hvað það varðar liggur fyrir.

Ljósleiðari Mílu veitir allt að 1 Gb/s hraða í báðar áttir. Með því að tengjast ljósleiðaranum fá heimili og fyrirtæki í Grundarfirði aðgang að háhraða fjarskiptasambandi sem mætir þörfum og tækniþróun til framtíðar, segir í tilkynningu frá Mílu. 

-- 

Í tengslum við verkefnið "Ísland ljóstengt" voru heimili og fyrirtæki í dreifbýli tengd ljósleiðara á árunum 2018-2019, með sérstökum framlögum eða styrk ríkis og sveitarfélags, sem eingöngu náði til dreifbýlis.

Á þessari yfirlitsmynd Mílu um þéttbýli Grundarfjarðar má svo sjá þau fyrirtæki og heimili sem þegar eru komin með ljósleiðara eða eiga kost á því, sem og fyrirhugaðar tengingar eftir framkvæmdirnar sem nú er verið að ljúka við (júlí 2023), en það eru um 2/3 hlutar heimila í þéttbýlinu:

Yfirlitsmynd Mílu 11.07.2023