13. Stjórnarfundur Eyrbyggja mánudaginn 4. september 2000 kl 20:00.

Viðstaddir: Hildur Mósesdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Hermann Jóhannesson, Guðlaugur Pálsson, Magnús Þórarinsson, Gísli Karel Halldórsson, Elinbjörg Kristjánsdóttir tilkynnti forföll.

 
Hildur kom með ný bláber á fundinn sem hún hafði fengið send frá Dóru Haralds. í Grundarfirði

1. Stjórnin skipti með sér verkum. Gísli Karel Halldórsson var kjörinn formaður og Hildur Mósesdóttir gjaldkeri.

 

2. Farið var yfir stöðuna við dreifingu og sölu á bókinni. Eftir er að afhenda styrktaraðilum bækur. Hermann og Hildur munu ljúka því í samræmi við fyrirheit. Styrktaraðilar eiga eftir að fá 67 eintök af bókinni. Hermann upplýsti að á Grundarfjarðarhátíðinni hafi verið seld 180 eintök. Stjórn Eyrbyggja hefur ráðstafað 50 eintökum til höfunda og velunnara. Björg sveitarstjóri þarf væntanlega 30-50 eintök. Bókabúðin í Grundarfirði þarf að hafa minnst 10 eintök. Söluaðilinn Nálin hyggst fara í símsölu samkvæmt listanum yfir fermingarárgangana. Prentuð voru 500 eintök. Athuga þarf með viðbótarprentun ef viðbótarsala Nálarinnar verður yfir 100 eintök. Hildur mun kanna kostnað við viðbótarprentun.

 

3. Styrktaraðilar fá reikninga frá útgáfunni ,,Mál og mynd” upp á 335.000 kr. Eftirstöðvar útgáfukostnaðar er reikningur upp á 349.000 kr, sem kemur inn í uppgjör gagnvart Eyrarsveit. Gísli og Hildur munu gera upp fjármálin við Björgu sveitarstjóra. 

 

4. Rætt var um útgáfu á næsta hefti á ,,Safni til sögu Eyrarsveitar”. Útgáfan er samvinnuverkefni með ,,Sögunefnd Eyrarsveitar” og Eyrbyggja. Koma þarf á formlegum samskiptaleiðum þannig að báðir aðilar standi saman að verkefninu. Gísla var falið að ræða við Björgu sveitarstjóra um hvernig best sé að skipuleggja verkefnið.

 

5. Farið var yfir hugmyndir að efni og greinum til birtingar í næsta hefti. Í sigtinu eru nokkuð margar greinar. Fara þarf yfir þessar hugmyndir með Sögunefnd Eyrarsveitar og vinna að framgangi málsins.

 

6. Gerð var grein fyrir starfi örnefnanefndar. Í nefndinni eru Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir, Gunnar Magnússon frá Kirkjufelli og Gísli Karel Halldórsson. Hildur og Gunnar hafa unnið ötullega að skráningu örnefna fyrir vestan. Opinn fundur verður í Grundarfirði með Svavari Sigmundssyni forstöðumanni Örnefnastofnunar þann 14. október.

 

7. Gerð var grein fyrir starfi nefndar um söfnun vísna og sagna. Í nefndinni eru Páll Cecilsson, Vigdís Gunnarsdóttir og Halldór Páll Halldórsson sem formaður. Nefndin hefur sent út bréf til nokkurra einstaklinga og hyggst ná til stærri hóps þegar líður á haustið.

 

8. Gerð var grein fyrir starfsnefnd um söfnun og skráningu ljósmynda. Í nefndinni eru Sunna Njálsdóttir, Hermann Jóhannesson, Sveinn Arnórsson og Magnús Soffaníasson. Nefndin er að hefja störf eftir sumarfrí. Sunna verður formaður nefndarinnar og mun skipuleggja starfið.

 

9. Starfsnefnd um skráningu fiskimiða. Í nefndinni eru Elís Guðjónsson og Guðjón Elísson. Fyrir liggur talsvert magn af lýsingum á fiskimiðum sem Guðjón hyggst færa inn á landakort á svipaðan hátt og birt var í bókinni okkar í sumar. Gísli verður tengiliður stjórnarinnar við nefndina.

 

10. Manntölin frá 1901,1910,1920 og 1930. Elinbjörg og Hermann eru í vinnunefnd sem mun taka manntölin saman þannig að þau verði prenthæf.

 

11. Saga bátanna. Í vinnunefndinni eru Gunnar Hjálmarsson og Ólafur Hjálmarsson. Ólafur mun ræða við Gunnar og koma starfi nefndarinnar af stað.

 

12. Hermann varpaði fram hugmynd um að fá skútusiglara í Grundarfjörð á næstu Grundarfjarðarhátíð. Magnús Þ. mun hafa samband við áhugasama skútusiglara, kanna möguleikana og baklandið. Ef hér er um áhugaverða hugmynd að ræða verður hún borin undir skipuleggendur Grundarfjarðarhátíðarinnar.

 

13. Ef fjármagn verður aflögu eftir bókaútgáfuna þá hefur stjórnin áhuga á að setja upp örnefnamerkingar á völdum stöðum í Eyrarsveit í samvinnu við heimamenn. Teknar verða myndir frá þeim stað sem skiltið verður sett upp. Inn á myndirnar verða færð örnefni. Myndirnar verða síðan greyptar í ,,stálbók” svipuð þeirri sem afhent var á síðustu Grundarfjarðarhátíð. Stálbókin verður fest á uppistöðu á völdum stað þar sem viðkomandi mynd var tekin. Gengið er þannig frá stálbókinni með mynd og texta að hún þolir að standa úti í áratugi án þess að láta á sjá. Gaman væri að setja upp svona ,,stálbók” með mynd á Grundarkampi nærri gamla Grundarfjarðarkaupstaðnum. 

14. Næsti stjórnarfundur verður í Perlunni mánudaginn 2. október 2000 kl 20:00.