14. Stjórnarfundur Eyrbyggja kl 20 2. október 2000 í Perlunni.

Viðstaddir: Elinbjörg Kristjánsdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Hermann Jóhannesson, Guðlaugur Pálsson, Magnús Þórarinsson, Gísli Karel Halldórsson
 

1. Sölumál.
Farið var yfir stöðuna við dreifingu og sölu á bókinni. Fyrir helgi átti söluaðili eftir 50-60 eintök. Dæmið verður gert upp á næstunni. Stjórninni verður gerð grein fyrir sölunni og fjárhagsstöðu á næsta stjórnarfundi.

 

2. Örnefnaskilti
Samþykkt að stefna að því að setja upp örnefnaskilti fyrir næstu Grundarfjarðarhátíð. Vænlegur staður er á eða við Grundarkamp nærri Fornu Grund. Samþykkt að Hermann, Guðlaugur og Ólafur verði í undirbúningsnefnd fyrir uppsetningu á örnefnaskiltinu. Guðlaugur verður formaður nefndarinnar, undirbýr og boðar fundi hennar. Nefndin gerir grein fyrir starfi sínu á næsta stjórnarfundi.

 

3. Skútusiglarar.
Magnús tók að sér á síðasta stjórnarfundi að kanna möguleika á skútusiglingakeppni til Grundarfjarðar. Niðurstaða Magnúsar að siglingaleiðin þætti of löng til að vekja virkilegan áhuga. Málið verður tekið upp aftur eftir áramót.

 

4. Örnefnanefnd.
Gerð var grein fyrir starfi örnefnanefndar. Í nefndinni eru Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir, Gunnar Magnússon frá Kirkjufelli og Gísli Karel Halldórsson. Guðjón Elísson hefur tekið góðar myndir af fjallahringnum sem fyrirhugað er að færa örnefni inn á. Opinn fundur verður í Grunnskólanum Grundarfirði með Svavari Sigmundssyni forstöðumanni Örnefnastofnunar laugardaginn 14. október kl 14. Svavar mun halda fyrirlestur um örnefnaskráningu. Farið verður yfir það sem gert hefur verið og áframhaldandi vinna skipulögð. Vænst er þess að áhugasamir um örnefni mæti á fundinn.

 

4. Söfnun og skráning ljósmynda.
Gerð var grein fyrir starfsnefnd um söfnun og skráningu ljósmynda. Í nefndinni eru Sunna Njálsdóttir formaður, Hermann Jóhannesson, Sveinn Arnórsson og Magnús Soffaníasson. 

 

4.1 Sunna Njálsdóttir er að afla upplýsinga um staðla, stærðir, aðferðir og möguleika á geymslu mynda, hvort sem er frumeintök eða á tölvutæku formi.

 

4.2 Magnús Soffaníasson á skanner sem tekur myndir í mikilli upplausn og hefur til reiðu geymsluaðferð á tölvutæku efni. Hann er reiðubúinn að vinna eitthvað af því sjálfur en þó ekki fyrr en verkefnum hans fækkar. Hann getur hinsvegar kennt þetta manneskju sem er vel að sér í tölvunotkun.

 

4.3 Sveinn Arnórsson er búinn að skanna talsvert mikið af myndum á tölvutækt form. Sveinn mun í samráði við Sunnu bæta skráningu á myndunum.

 

4.4 Magnús Þórarinsson hefur athugað möguleika á að nýta gamla ljósmyndasafn föður síns Þórarins Sigurðssonar. Þórir Óskarsson ljósmyndari er núverandi rétthafi myndanna. Allt safnið er geymt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Magnús mun afla upplýsinga um myndir í safninu og hvað af myndunum væri áhugaverðar fyrir Eyrbyggja.

 

4.5 Gísli Karel hefur verið í sambandi við Pétur Jósefsson frá Setbergi sem hefur skrifað grein í næstu bókina okkar. Pétur mun koma með gamlar ljósmyndir til skönnunar.

 

4.6 Ragnar Kristjánsson Grundarfirði á talsvert af gömlum ljósmyndum sem hann hefur boðið 
Eyrbyggjum.

 

4.7 Gísli Karel hefur verið í sambandi við erfingja Péturs Eiríkssonar fyrrverandi sundkappa og fiskmatsmann. Pétur bjó í Grundarfirði 1942-45 og tók talsvert af myndum í Grundarfirði frá þeim árun og síðar.  Verið er að vinna í málinu og góðar líkur á að Eyrbyggjar fái þar áhugaverðar myndir til skönnunar.
 

5. Vísnanefnd.
Í nefndinni eru Páll Cecilsson, Vigdís Gunnarsdóttir og Halldór Páll Halldórsson sem formaður. Nefndarstarf er í gangi.

 

6. Fiskimið.
Starfsnefnd um skráningu fiskimiða. Í nefndinni eru Elís Guðjónsson og Guðjón Elísson. Guðjón hyggst halda áfram að koma lýsingum á fiskimiðum inn á tölvutækt kort.

 

7. Manntalsnefndin.
Manntölin frá 1901,1910,1920 og 1930. Elinbjörg og Hermann eru í vinnunefnd sem mun taka manntölin saman þannig að þau verði prenthæf.

 

8. Saga bátanna.
Í vinnunefndinni eru Gunnar Hjálmarsson og Ólafur Hjálmarsson. Starf þeirra bræðra er komið aðeins af stað.

 

9. Útgáfa bókar 2001.
Talsvert efni er í sigtinu til birtingar í næstu bók. Gerð verður grein fyrir því þegar samráð hefur verið haft við Sögunefndina.

10. Næsti fundur. 
Næsti stjórnarfundur verður í Perlunni mánudaginn 6. nóvember 2000 kl 20:00.