15. Stjórnarfundur Eyrbyggja kl 20 6. nóv. 2000 í Perlunni.

Viðstaddir: Hildur Mósesdóttir, Hermann Jóhannesson, Guðlaugur Pálsson, Magnús Þórarinsson, Gísli Karel Halldórsson, Sigurður Hallgrímsson var hluta fundarins.
   

1. Sölumál.
Hermann gerði grein fyrir sölu og dreifingu. 
Niðustaða dreifingar er þannig:
Saumaklúbburinn Nálin hefur selt  229 stk
Nálin á óinnheimt 7 stk
Eyrarsveit fékk 30 stk
Styrktaraðilar fengu 67 stk
Hrannarbúðin seldi 11 stk
Óseldar bækur hjá Nálinni 54 stk
Gallaðar bækur 2 stk
Samtals: 400 stk
Prentuð voru 500 eintök. Til velunnara hefur verið ráðstafað um 40 eintökum. 
Einnig hafa verið seldar 32 húfur. 
Innkoma af sölu bóka og húfa þegar söluþóknun hefur verið dregin frá er 526.000 kr.
Stjórn Eyrbyggja lýsti yfir ánægju sinni með sölu og uppgjör hjá saumaklúbbnum ,,Nálinni”.     

2. Örnefnaskilti
Guðlaugur Pálsson gerði grein fyrir fundi undirbúningsnefndar um örnefnaskilti. Herman kom með og sýndi líkan sem smíðað hefur verið af örnefnaskilti. Örnefnaskiltið er úr ryðfríu stáli. Skiltið er eins og opin bók, og líkanið sem Hermann sýndi var af stærðinni A3, en endanleg gerð gæti verið nokkuð stærra. Gert er ráð fyrir að inni í bókaropnuna komi ljósmynd af fjöllum og myndin er tekin frá þeim stað sem skiltið verður sett upp á. Inn á myndina verða færð örnefni þannig að auðvelt verði að átta sig á örnefnum við skoðun á skiltinu. Myndin verður brennd inn í stálið og mun þola að vera á víðavangi allt árið.  Undir skiltinu verður undirstaða, eins konar skúlptúr úr ryðfríu stáli, sem fest verður á steypta undirstöðu. Gísla falið að ræða við Björgu sveitarstjóra og koma á samráðsfundi með skipulagsaðilum í Grundarfirði.  Gísli, Hermann og Guðlaugur stefna að því að fara vestur laugardaginn 25. nóvember.

3. Grein um fræðslumál.
Sigurður Hallgrímsson kom á fundinn og lagði fram lista frá Jens Hallgrímssyni fyrrum kennara yfir þá kennara sem voru við kennslu í Eyrarsveit 1914-1965. Æskilegt væri að bæta nokkuð utan á þá beinagrind sem gerð hefur verið. Bæta mætti við nánari upplýsingum um kennarana, skólahúsnæði, kennsluháttum, lengd skólahalds, fjölda nemenda o.fl. Sigurður Hallgrímsson mun ræða við Jens Hallgrímsson og Sigríði Pálsdóttur um viðbætur í greinina.

4. Örnefnanefnd.
Gísli gerði grein fyrir opnum fundi sem var í Grundarfirði um örnefnaskráningu laugardaginn 14. október. Svavar Sigmundsson forstöðumaður Örnefnastofnunar flutti fræðslufyrirlestur um örnefnaskráningu. Á fundinum gerði Hildur Sæmundsdóttir grein fyrir starfi örnefnanefndar. Talsvert hefur verið unnið við að færa örnefni inn á loftmyndir og ljósmyndir. Von er á nýjum loftmyndum af Eyrarsveit innan skamms. Á fundinum sýndu Guðjón Elísson og Sveinn Arnórsson mjög skemmtilegar myndir í skjávarpa. Bæði voru þar nýjar landslagsmyndir til að skrá inn á örnefni, einnig sýndu þeir talsvert af ,,gömlum” myndum sem þeir höfðu skannað og vörpuðu upp á sýningartjald úr tölvunni.

4. Söfnun og skráning ljósmynda.
Gísli gerði grein fyrir starfi um söfnun ljósmynda. Í vinnunefndinni  um ljósmyndasöfnun eru Sunna Njálsdóttir formaður, Hermann Jóhannesson, Sveinn Arnórsson og Magnús Soffaníasson. Sunna er að afla sér upplýsinga um hvernig best verði staðið að skráningu.
Magnús Þórarinsson fór í Ljósmyndasafn Reykjavíkur og kannaði hluta af ljósmyndum föður síns Þórarins Sigurðssonar. Safn Þórarins S. er í kössum og hefur lítið verið gert með þær frá því Þórarinn afhenti myndirnar. Mest eru það mannamyndir sem Þórarinn tók sem atvinnuljósmyndari, en nokkrar myndir eru frá Grundarfirði. Magnús Þ. sagði að starfsfólk Ljósmyndasafns Reykjavíkur væri tilbúið til að flokka safnið á þann hátt sem þau eru vön. Magnús mun láta stækka valdar myndir úr safninu og kemur með þær á næsta stjórnarfund. Magnús mun einnig skrá hvaða myndir Þórarins voru teknar í Grundarfirði og koma með upplýsingar á næsta fund. 

5. Dreifing á Þey.
Hermann varpaði fram þeirri hugmynd að kaupa dreifingu á einu eintaki af Þey til allra Eyrbyggja sem búa hér innanlands en utan Eyrarsveitar. Áætlaður kostnaður er 12.000 kr fyrir hvert skipti. Stefnt að  því að kaupa eintak til dreifingar eftir áramót. Eyrbyggjar þyrftu að koma þar að grein til til kynningar á starfinu.

6. Næsti fundur. 
Næsti stjórnarfundur verður í Perlunni mánudaginn 4. desember 2000 kl 20:00.