Mynd: Björg Ágústsdóttir
Mynd: Björg Ágústsdóttir

Þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, var haldinn hátíðlegur í Grundarfirði 

Hátíðarhöld hófust með hinum árlegu Grundar- og Kvernárhlaupum UMFG og var góð þátttaka. Gunnar Andri og Pálmi sáu um upphitun fyrir hlaupin og Kristín Halla sá um skráningar og tímatöku líkt og hún hefur gert sl. 20 ár.  Skemmtileg stemning myndaðist með tónlist og hvatningu frá  áhorfendum. Kjörbúðin bauð hlaupurum upp á ávexti og eru þeim færðar kærar þakkir. Sundmót félagsins tókst einnig vel, þar var líka góð þátttaka. Að hlaupum og sundi loknu bauð UMFG bæjarbúum uppá grillaðar pylsur og fengu allir þátttakendur verðlaunapening. UMFG gaf leik- og grunnskólabörnum stuttermabol merktan félaginu, en þau sem eiga eftir að fá bol mega hafa samband við Sirrý formann UMFG.

Eftir hádegið var haldið niður að miðbæjarreit hjá Víkingasvæðinu og fór þar fram andlitsmálun og upphitun fyrir skrúðgönguna. Gengið var upp Hrannarstíginn og Ölkelduveg í átt að íþróttahúsinu þar sem hátíðardagskráin fór fram. Ragnheiður Sigurðardóttir flutti hátíðarræðu, sem fulltrúi Félags eldri borgara í Grundarfirði. Ávarp hennar má lesa neðst í fréttinni. Signý Gunnarsdóttir var fjallkona Grundarfjarðar og flutti ljóðið 17. júní eftir Pál Hólm, sem einnig má lesa hér neðar.

Verkefnið "Komum saman" eða "Let’s Come Together", sem snýst um að tengja saman íbúa af ólíkum þjóðernum, stóð fyrir því í fyrsta sinn að veita viðurkenninguna “Brúarsmiður 2023”. Alicja Chajewska, sem átti frumkvæði að verkefninu og var verkefnisstjóri fyrsta árið, fékk viðurkenningu fyrir að auka vitund og opna dyr að fjölmenningarsamfélaginu í Grundarfirði, með þessu verkefni. Karitas Eiðsdóttir fékk viðurkenningu fyrir að leiða fólk saman með prjónakvöldum sem hún hefur staðið fyrir, en hún var einstaklega dugleg við að deila upplýsingum um viðburðina einnig á ensku inn í Facebook-hóp verkefnisins. Þannig fundu íbúar sem ekki tala íslensku að þau voru velkomin og nokkur þeirra nýttu sér þetta tækifæri til að læra að prjóna. Viðurkenningarnar veittu Sigurborg Kr. Hannesdóttir, sem situr í stjórn verkefnisins og Ophélie Bouclier, verkefnisstjóri.

Í lokin sungu söngfuglarnir Emilía Rós Pawelsdóttir, Ísabella Ósk Davíðsdóttir og Jódís Kristín Jónsdóttir nokkur lög við undirspil Lindu Maríu Nielsen.

Á hátíðarsvæðinu, inní íþróttahúsi, var kökubasar Kvenfélagsins Gleym-mér-ei og Blossi var með sölubás sem slógu bæði í gegn, en allar kökurnar seldust upp og mæðgurnar í Blossa höfðu ekki undan við að afgreiða sælgæti og krapið, en það var í boði Grundarfjarðarbæjar. Inni var einnig hoppukastali fyrir yngri kynslóðina en úti fyrir, við hliðina á ærslabelgnum, voru loftboltar fyrir þau eldri.

Klukkan 17 var boðið í "hundapartý" í nýja hundagerðinu í Hálsi. Var vel mætt af ferfætlingum og fjölskyldum þeirra. Hittingurinn fór glimrandi vel fram og Valeria bauð gestum upp á kakó en hvuttarnir fengu nóg af hundanammi.

Nokkrir veitingastaðir bæjarins voru svo með kræsingar í tilefni dagsins og iðaði bærinn af lífi, enda rættist vel úr veðrinu þennan daginn og sumar í loftinu.

Við hvetjum ykkur sem tókuð myndir af deginum að senda þær á grundarfjordur@grundarfjordur.is

 --

Grundarfjarðarbær vill þakka öllum fyrir sem tóku þátt í undirbúningi hátíðarinnar og þá sérstaklega:

Ragnar og Ásgeir ehf. fyrir að lána bíl undir svið, eins og fjölmörg undanfarin ár.

Rut Rúnarsdóttur fyrir að skreyta og gera hátíðina litríkari, en einnig Rut og Leoni Loga syni hennar fyrir að kynna atriðin með miklum sóma.

Mörtu Magnúsdóttur fyrir að stýra skrúðgöngunni og halda utan um hundapartýið.

Áslaugu Stellu Steinarsdóttur, Steinunni Cecilíu Steinarsdóttur og Mýrúnu Lottu Loftsdóttur Klee, en þær sáu um andlitsmálningu á unga sem aldna.

Þorkeli Mána Þorkelssyni fyrir að láta alla hljóma vel.

Kvenfélaginu Gleym-mér-ei fyrir að taka svona vel í að vera með kökubás og koma með nægar kökur til að allir fari sáttir heim með köku í kaffitímann.

Ingibjörgu Sigurðardóttur og Helgu Sjöfn Ólafsdóttur fyrir að stökkva til og vera með eðal 17. júní sjoppu.

Að ógleymdum ræðumanni dagsins, fjallkonu, söngkonum og undirleikara.

En ekki síst, þakkir til allra sem mættu og tóku þátt í viðburðum dagsins!

 

Hátíðarræða

Ljóð 

 

    

17. júní 2023 17. júní 2023