Hátíðardagskráin var með hefðbundnu sniði hér í Grundarfirði. Dagurinn byrjaði með sundmóti UMFG og í kjölfarið var hlaupið Grundar- og Kvernárhlaup. Fyrir skrúðgöngu var börnum boðið upp á andlitsmálningu. Að því loknu hélt skrúðgangan með Hesteigendafélag Grundarfjarðar í broddi fylkingar upp í þríhyrning.  

Þær Hafdís Benediktsdóttir og Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir fluttu hátíðarræðu og fjallkona að þessu sinni var Helga Hjálmrós Bjarnadóttir. Sylvía Rún stjórnaði söngatriði þar sem krakkar á ýmsum aldri tóku lagið. Frjálsíþrótta- og sunddeild UMFG sáu um Fitness keppni og annað skemmtilegt fyrir gesti og gangandi. Hátíðinni lauk svo með diskóteki fyrir börn og unglinga í Samkomuhúsi Grundarfjarðar.

Veðrið lék við Grundfirðinga þennan dag með sól og blíðu!

Íþrótta- og tómstundanefnd ásamt öllum þeim sem komu að hátíðarhöldunum eru færðar þakkir fyrir.