Eru B.P. komnir á skrið?

 

Það er langt síðan hópur hefur hækkað sig á milli helga um 14 sæti eins og B.P. gerði s.l. helgi, fór úr 16. sæti í annað sætið (Pálmi sennilega sett meiri kraft í olíuna).

Þá eru Trukkarnir komnir í fyrsta sætið á kostnað Alonso sem nú er í 5. sæti. Þá fylgja Meistararnir,  Trukkunum vel eftir og munar aðeins 1 stigi á þeim (þeir hafa þó ekki jafnöflugan bílakost eins og Trukkarnir). Alfredo virðist vera í frjálsu falli því þeir falla niður um 5 sæti og eru nú í því 10. (þrátt fyrir að Alfredo mætti á svæðið og tippaði ásamt guttunum). Þá er Önundur dótturfélag að koma sterkt inn, því þeir færast upp um 9 sæti (Rúnar var víst ekki í símasambandi svo dótturfélagið sá um seðilinn). Nú það er að færast líf í Feðgana og þeir færast upp um 3 sæti (og ró er að færast yfir hafnarvigtina). Tímon og Pumba eru að koma sterk inn sem nýr hópur og eru í 4. sæti en falla niður um eitt sæti  (eins gott að seðlinum sé ekki stolið af Gunna).

Þá er Frænkan að koma til (enda Gæi kominn aftur í hópinn, eftir smá hvíld), og hópurinn færist upp um 3 sæti. Sumir hópar færast hægt og hljótt upp  töfluna án þess að tekið sé eftir því, eins og H.G. sem endaði í 22. sæti á síðustu leiktíð, en er kominn nú í 9 sætið. Nú eitthvað hefur helgin farið í Timburmenn því þeir færast niður um 2 sæti úr því 9. í það 11. (já það er mismunandi hvernig helgin fer í mann). M.K. Hópurinn sem er sá hópur sem oftast hefut skipt um nafn byrjaði vel í fyrstu leikviku og náði 2. sætinu en er núna kominn í 12. sætið (en þessi hópur hefur alltaf verið skipaður sömu einstaklingum frá upphafi, en undir mismunandi nöfnum eins og ESSO, Fiðrildin og núna þetta nafn. Ég held að hópurinn hefði átt að halda sig við Fiðrildin því  meyja og krabbi eins og hópurinn er nefndur eftir fljúga ekki, en það gera fiðrildin).

Nú þá eru Golfarar að færast allir í aukana því þeir lentu í 20. sæti í fyrstu umferð en eru nú komnir í 13. sætið. Á síðustu leiktíð þá enduðu þeir í 9. sætinu ( en nú horfir allt til betri vegar því Sverrir er búinn að fara á ASÍ-þing og svo til Póllands og er örugglega með línuna núna hvað á að gera). Up the irons koma sterkir inn þessa helgi en þeir voru ekki með í byrjun. Þeir voru í 5. sæti í fyrra og ná núna 10 stígum og eru í 14. sætinu (þeir gleymdu að vera með fyrstu helgina því annar var úti á sjó og hinn í Búlgaríu. Sennilega að fá línuna eins og Sverrir). Og S.G.Hópurinn eins og vanalega er búinn að hreiðra um sig á sínum stað þ.e. rétt fyrir neðan miðju í 15. sætinu. En þeir enduðu í 16. sætinu í fyrra en nú var tippað frá Egyptalandi og Póllandi (engin samstaða um hvert ætti að fara, hvað þá um hvernig ætti að tippa). Þá kemur einn hópur sem er búinn að breyta um nafn og hét áður Guðni og sonur, en nú er komið nafn á soninn svo hópurinn heitir núna Guðni og Eyþór. Þeir lentu í 11. sæti í fyrra en eru núna í því 16. “Stolt siglir fleyið mitt” segir í einhverjum dægurlagatexta, og það virðast þeir félagar í Sjóurum gera, þrátt fyrir að missa af fyrstu helginni. Þeir virðast vera í framför og eru komnir í 17. sætið en enduðu í  19. sætinu í fyrra ( á Tóti inni kvóta ?). Obba bobb, ekki blæst byrlega fyrir þeim Liverpool-aðdáendum í Crauch því þeir eru í 18. sæti eftir 2 helgar og enduðu í 2. sæti í fyrra (er ekki kominn tími til að skipta um nafn, ég bara spyr). Mæðginin  sem endaði í 6. sæti í fyrra er kominn í 19. sætið núna hvað er að gerast (Gæi er ekki kominn tími á að þú látir mömmu þína ráða einum seðli). Þá kemur enn eitt Liverpool-nafnið til sögunnar, Torres, sem færist úr 19. sæti í það 20. (sennilega vegna meiðsla). Enn eitt nýtt nafn kemur inn í breyttum búningi, en það er Mega Muffins og eru nú í 21. sæti (hvað þetta nafn þýðir veit ég ekki, en mér finnst það þýða “Risa rúnnstykki”). Þá eru Kiðlingarnir aftur mættir til leiks, en þeir lentu í 21. sæti í fyrra og eru nú í 22. sæti . Nýr hópur sem nefnir sig Mömmustráka virðist koma sterklega inn því þeir eru í 23. sæti þrátt fyrir mistök við að fylla út seðilinn síðast (kalla sennilega ekki allt mömmu sína þessir strákar). Fast á hæla þeim koma Mæðgurnar sem er nýr hópur (gaman hvað þetta er allt fjölskylduvænt í nafngiftum hjá þátttakendum) en þær eru í 24. sætinu og tóku ekki þátt í fyrstu umferð.  Þá kemur hópur sem virðist gleyma því að hann sé með í keppninni, þ.e. Skytturnar því skytturnar gleymdu að skrá sig í upphafi og gleymdu að skila inn seðli s.l. helgi (ég vona að þetta sé ekki ættgengt). Nú lestina rekur hópurinn  Ég ein sem kom inn á síðustu stundu s.l. helgi (ég hef trú á því eftir að hafa grafið nánar í nafnið að þar sé ekki ein manneskja á ferð).

Nú þá eru upptaldir allir hópar sem skráð sig hafa til leiks núna. Ég sakna hópa eins og Bændurnir (eru sennilega ekki búnir að heyja og byggja), Lengjunni, Bræðurnir  og Samherjum en hver veit,  vonandi koma þeir inn og veita hinum harða keppni.

 

Staðan í hópleiknum

            Leikvika                                   42        43       

RÖР   Hópur                                                              STAÐAN

1          Trukkarnir                                11        10         21

2          B.P.                                           8         12        20

3          Meistararnir                             10         10        20

4          Timon og Pumba                       11          9        20

5          Alonso                                      12          8        20

6          Önundur Dótturfélag                 9         10       19

7          Feðgarnir                                    9          9       18

8          Frænkan                                     9          9       18

9          H.G.                                            9          9       18

10        Alfredo                                      10          8       18

11        Timburmenn                              10          8       18

12        M. K. Hópurinn                          11          7       18

13        Golfarar                                       7        10       17

14        Up the irons                                 7        10       17

15        S.G. Hópurinn                              9          8       17

16        Guðni og Eyþór                          10          7       17

17        Sjóarar                                        7           9       16

18        Crauch                                         8          8       16

19        Mæðginin                                     8          8       16

20        Torres                                          8          8        16

21        Mega Muffins                              10         6        16

22        Kiðlingarnir                                   7          8        15

23        Mömmustrákar                             7          8        15

24        Mæðgurnar                                  7          8        15

25        Skytturnar                                   9          6        15

26        Ég ein                                           7          7        14