Stjórnarfundur var haldinn á kaffiteríunni í Perlunni mánudaginn 4. október 1999. Meðfylgjandi er útdráttur úr fundargerð. Mættir voru allir stjórnarmenn.

1.Samþykktir. Farið var yfir tillögur að samþykktum félagsins. 

 

2.Útgáfa. Áhugi er á að vinna að útgáfu á bæklingi sem sem færi í dreifingu á næstu "Grundarfjarðargleði", sumarið 2000. Í bæklingnum væri örnefnaskrá, listi yfir fermingarárganga frá Grundarfirði, hagtölur, lýsing á gömlum fiskimiðum og reynt að afla áhugaverðra greina frá eldri Grundfirðingum. 

 

3.Örnefnaskrár. Hildur Mósesdóttir ljósritaði örnefnaskrár fyrir bæi í Eyrarsveit á Örnefnastofnun. Skráin er um 172 bls af mjög áhugaverðu efni sem gera má ráð fyrir að margir hefðu gaman af að skoða. 

 

4.Fermingarárgangar. Elinbjörg Kristjánsdóttir og Hermann Jóhannesson hafa verið mikið á Þjóðskjalasafninu og útbúið lista yfir fermingarárganga. Búið er að gera lista yfir fermingarárganga frá 1950 til 1970. Unnið verður áfram og gerðir listar sem ná til dagsins í dag. Í framhaldi af því verður reynt að taka saman gögn frá því fyrir 1950. Listarnir innihalda nöfn, heimilisfang við fermingu, kennitölu og núverandi heimilisfang. Á tímabilini 1950-1970 voru fermd 224 börn frá Setbergi og Grundarfjarðarkirkju. Þar af eru 9 látin, 55 eru búsett í Eyrarsveit en 160 hafa flutt úr Eyrarsveit. 

 

5.Ljósmyndasafn. Sigurður Hallgrímsson og Gísli Karel Halldórsson hafa skoðað möguleika á ljósmyndasöfnun og hvernig væri best að standa að slíku. Að sögn heimamanna í Grundarfirði er húsnæðisskortur aðal vandamálið við að koma upp góðu ljósmyndasafni. Hugmyndir hafa verið um að á einum stað yrði bókasafn, ljósmyndasafn og hugsanlega einnig héraðsskjalasafn. 

 

6.Gömul fiskimið. Ólafur Hjálmarsson hefur byrjað söfnun á lýsingum á gömlum fiskimiðum og siglingaleiðum. Hér er um mjög áhugavert efni að ræða sem gaman væri að ná saman og gefa út. 

 

7.Hagtölugerð. Jóhannes F. Halldórsson og Lilja Mósesdóttir munu vinna upp ýmsar hagtölur varðandi   Grundarfjörð sem gæti átt erindi í bæklinginn. 

 

8.Gamlar sögur og lýsingar. Leitar hefur verið til Halldórs Finnssonar um að skrifa grein um þróun samgangna í Eyrarsveit. Einnig er Sigríður Pálsdóttir (Sigga Páls) frá Hömrum tilbúin til að skrifa grein um gamla Þinghúsið og einnig um gamla Brunnhúsið á Hömrum. Reynt verður að afla fleiri áhugaverðra
greina. 
 

Bráðskemmtilegum stjórnarfundi var slitið þegar langt var liðið á kvöld. Verkefnum var dreift á stjórnarmenn , ákveðið að halda næsta fund á sama stað 15. nóvember.