Laugardaginn 27. mars var útskrifað af námskeiðinu „Átthaganám á Snæfellsnesi, svæðisþekking og upplýsingamiðlun“. Útskriftin var með óhefðbundnu móti, hópurinn fór í rútu hringinn í kringum Snæfellsjökul og skiptust þátttakendur á að segja frá því sem fyrir augu bar. Þetta var hin mesta skemmtun og fróðlegt mjög að auki. Hin eiginlega útskrift fór svo fram á Hótel Búðum að ferð lokinni. 

Námskeiðið hófst í janúar og var markmið þess að efla þekkingu þátttakenda á Snæfellsnesi og auka færni þeirra á að miðla þeirri þekkingu. Fengir voru fyrirlesarar til að fræða um Snæfellsnesið og svo unnu þátttakendur verkefni í kjölfarið. Þetta er í fyrsta skiptið sem þetta námskeið er á boðstólnum en miðað við viðtökur er ljóst að töluverð þörf er á slíku námskeiði.

 

Námskeiðið var styrkt af Vinnumarkaðsráði Vesturlands og haldið á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og Samtaka Sveitarfélaga á Vesturlandi.