21. Stjórnarfundur Eyrbyggja kl 20 7. maí 2001 í Perlunni.

 

Viðstaddir:   Elinbjörg Kristjánsdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Guðlaugur Pálsson, Freyja Bergsveinsdóttir, Hermann Jóhannesson, Hildur Mósesdóttir, Magnús Þórarinsson, Gísli Karel Halldórsson.

1.       Efnisöflun í bók.

Farið var yfir stöðu efnisöflunar. Talsvert af efni er komið til Gísla á tölvutæku formi. Nokkrar mikilvægar greinar eiga eftir að koma, en fyrirheit hafa verið gefin um að þær komi fyrir lok mánaðarins.

 

2.       Skipaskrá.

Ólafur Hjálmarsson sýndi drög að skrá fyrir öll skip og báta sem gerð hafa

verið út frá Grundarfirði á 20. öldinni.

 

3.       Kápa á bókina.

Freyja Bergsveinsdóttir gerði grein fyrir tillögu að útliti bókarinnar og mynd sem yrði á forsíðunni. Tillaga Freyju um vetrarmynd af Kirkjufelli var samþykkt.

 

4.       Myndir Collingwoods 1897.

Rætt var um myndir sem Collingwood málaði í Grundarfirði í Íslandsferð sinni. Guðmundur K. Steinbach verkfræðingur hefur fengið nokkrar Collingwood myndir frá ættingjum sínum í Danmörku. Guðmundur mun kanna hjá ættingjunum  í Danmörku hvort þar liggi fleiri myndir eftir Collingwood sem ekki hafa sést hér á landi.

 

5.       Upplag bókarinnar.

Líklega er rétt að prenta bókina í um 700 eintökum. Verður rætt nánar við sögunefnd Eyrarsveitar.

 

6.       Dreifing og sala bókarinnar.

Fara þarf yfir með sögunefnd Eyrarsveitar hvernig verði staðið að sölu og dreifingu á bókinni.

 

7.       Skútusiglarar.

Á næstu ,,Á góðri stund í Grundarfirði” verður keppni skútusiglara. Skúturnar munu leggja upp frá Reykjavík og sigla í einni strikklotu til Grundarfjarðar. Ingi Hans Jónsson verður framkvæmdarstjóri fyrir næstu Grundarfjarðarhátíð og hefur beðið fulltrúa Eyrbyggja að skipuleggja móttöku skútusiglaranna. Magnús Þórarinsson hefur tekið að sér að skipuleggja móttöku siglaranna. Einnig þarf að huga að verðlaunaafhendingu og að bjóða siglurunum í sund og grill. Magnús og Hermann hafa tekið að sér að ræða við keppnisstjóra skútusiglara til undirbúnings keppninni.

 

8.       Saga Hraðfrystihúss Grundarfjarðar.

Fjalar Elísson er reiðubúinn til að taka saman grein um sögu Hraðfrystihúss Grundarfjarðar sem yrði birt í bókinni okkar 2002. 

 

9.       Næsti fundur.

Næsti fundur verður í Perlunni mánudaginn 11. júní 2001 kl 20.