27 íslenskar hafnir uppfylla nú öryggiskröfur Alþjóðasiglingastofnunarinnar sem meðal annars eru gerðar vegna hugsanlegrar hryðjuverkaógnar, vopnasmygls og efnavopnaárásar. Alls 30 hafnarstjórnir á landinu hyggjast standast kröfur um siglingavernd.

 

Í stuttu máli gerir Alþjóðasiglingastofnunin allar hafnir ábyrgar fyrir þeim skipum sem þar eru bundin við bryggju og setur þær kröfur að svæðin séu afmörkuð, aðgangi að þeim stýrt og að leitað sé í höfnum ef ástæða þykir til. Engin krafa er gerð um vopnaða verði. Reglurnar gilda um skemmtiferðaskip og flutningaskip í millilandasiglingum stærri en 500 brúttótonn.

 

Reglurnar tóku gildi þann 1. júlí síðastliðinn og er Ísland meðal þeirra landa sem hvað lengst eru á veg komin með siglingaverndina, af tæplega 150 þjóðum.

 

Millilandaskip hafa viðkomu í um 35 íslenskum höfnum en þar sem hafnirnar hafa sjálfdæmi um hvort þær uppfylli kröfurnar eða ekki, hafa fimm hafnir, vegna lítillar umferðar, kosið að gera það ekki.

 

Sótt á vef Ríkisútvarpsins www.ruv.is