Annar flokkur karla spilaði í úrslitum innanhúss móts KSÍ í Austurbergi í Breiðholti. 

Efti röð Þorsteinn, Brynjar Gauti, Heimir Þór, Ejub

neðri röð Brynjar, Ingi Björn, Ingólfur og Dominik

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að okkar menn völtuðu yfir þessa keppni.  Þeir spiluðu í riðli með Val og Víkingi R.   Sigruðu Val 3-1 og fengu þar á sig eina markið í keppninni.  Unnu Víkinga 2-0 og fengu Fylki sem andstæðinga í undanúrslitum og unnu þá sömuleiðis 2-0.   Valsmenn unnu hinn undanúrslitaleikinn sem sýnir hversu sterkur riðill strákanna var.  Eitthvað hafa Valsmenn átt erfiðari undanúrslitaleik því að okkar menn skelltu þeim í úrslitaleiknum 5-0.   Fyrsti Íslandsmeistaratitill ársins því kominn á Snæfellsnes og tónninn gefinn fyrir  sumarið

Efri röð Snædís, María, Rakel, Telma, Aníta, Agnes, Addi, Sigrún

 neðri röð Guðrún, ALdís, Elín, Kristrún og Azra

Silfurstelpur
Stelpurnar í 5. flokki hófu leik á laugardag í sterkum riðli með KS, Val, og Fram.   Þær sýndu samt að þær voru ekki komnar í Höllina fyrir neina tilviljun og skelltu Frömurum í fyrsta leik 2-0.   Næsti leikur var á móti Val sem einhvern tíma hefði þótt ókleifur múr en okkar stelpur hringsóluðu í kringum þær og unnu 2-0.  Siglfirsku stelpurnar í KS höfðu unnið báða sína leiki og því var leikur Snæfellsness og KS um fyrsta sæti riðilsins.  Hörkuleikur sem endaði með jafntefli 1-1 sem dugði KS þar sem þær höfðu hagstæðari markatölu úr öðrum leikjum.  Stelpurnar samt komnar í undanúrslit á móti efsta liði hins riðilsins, Breiðabliki.  Blikarnir huggðu á hefndir en þær höfðu tapað óvænt fyrir stelpunum í undanriðlum.  Þessi leikur var foreldrum og aðstandenum ekki síðri þolraun en stelpunum.  Stál í stál allan tímann og 0-0 í leikslok, áfram markalaust eftir framlengingu og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni sem okkar stelpur höfðu hreint ekki gert ráð fyrir og höfðu ekki æft neitt sérstaklega.  Dramtíkin var algjör.  Ein spyrna okkar stúlkna misfórst en Guðrún markvörður náði að verja eina spyrnu þannig að það var enn jafnt og því gripið til bráðabana til að fá fram úrslit.  Guðrún meiddist við markvörsluna en hinn markvörðurinn, Azra leysti hana af með glæsibrag, varði fyrstu spyrnu og tryggði Snæfellingum frækinn en mjög strembinn sigur.  Úrslitaleikur um Íslandsmeistaratilinn var því háður á milli KS sem vann sinn undanúrslitaleik nokkuð létt, og Snæfellsness.   Okkar stelpur voru nokkuð lúnar og töpuðu leiknum stórt, 5-0.    Frábær árangur að ná í silfur og hver hefði trúað því fyrir rúmu ári þegar samstarfið hófst að stelpur frá Snæfellsnesi stæðu þarna, hundsvekktar yfir að hafa tapað úrslitaleik Íslandsmóts.
Við tökum samt ofan fyrir Siglfirðingum sem komu um langan veg, sáu og sigruðu. 

Efri röð Ragnar, Alfreð, Hilmar,  Finni, Leifur

 neðri röð Gunnar, Arnar, Sindri og Bárður


 

Strákarnir í 4. flokki duttu nokkuð óvænt inn í úrslitakeppnina vegna forfalla annarra liða.   Lítill tími gafst því til samæfinga og undirbúnings og því nokkuð á brattann að sækja fyrir okkar menn.  Það fór svo að þeir töpuðu öllum sínum leikjum og enduðu í 8. sæti.  Þeir stóðu sig samt vel og spiluðu ágætlega þó svo að afraksturinn hafi verið rýr.   Sigrar eru heldur ekki höfuðatriði heldur ber að líta á að þarna græddist mikil reynsla og mjög gott að komast í úrslitakeppnina.