Í gær, miðvikudaginn 23. febrúar 2022 var þess minnst að 30 ár eru liðin frá því að togarinn Krossnes SH 308 frá Grundarfirði sökk á Halamiðum. Með skipinu fórust þrír grundfirskir sjómenn, en níu úr áhöfninni var bjargað. 

Atburðarins var minnst við látlausa en fallega athöfn í Setbergskirkjugarði, þar sem fyrrum skipverjar á Krossnesi og ættingjar þeirra komu saman. Látinna félaga var minnst, þeirra Gísla Árnasonar, Hans Guðna Friðjónssonar og Sigmundar Magnúsar Elíassonar og blómakrans lagður að minnismerki þeirra. Einnig var minnst skipsfélaga sem látnir eru síðan, þeirra Torfa Freys Alexanderssonar og Garðars Gunnarssonar.  Hafsteinn Garðarsson flutti minningarorð, en hann var skipstjóri í hinni afdrifaríku ferð,  Sigurður Ólafur Þorvarðarson flutti sjóferðabæn, en hann var þá stýrimaður, og sr. Aðalsteinn Þorvaldsson sóknarprestur leiddi í bæn. Á eftir var sest niður yfir kaffiveitingum í Kaffi 59, í boði FISK Seafood. 

Af þessu tilefni voru Bæringsmyndir vikunnar fleiri en venjulega og tengjast þær þessum mönnum, sjómennsku og hafinu. 

Nánar verður fjallað um þetta í Skessuhorninu í næstu viku.