38. stjórnarfundar Eyrbyggja 3. desember 2002  kl 20:00 á kaffiteríunni í Perlunni í Reykjavík.

Viðstaddir: Elínbjörg Kristjánsdóttir, Hermann Jóhannesson, Gísli Karel Halldórsson, Ásthildur Elva Kristjánsdóttir, Orri Árnason, Hrönn Harðardóttir, Hrafnhildur Pálsdóttir, Kristján Guðmundsson (sem gestur)

1.                  Stjórnarskipti.

Hrafnhildur Pálsdóttir frá Naustum tók sæti  Hrannar Harðardóttur í stjórn félagsins.

2.                  Styrktaraðilar.

Leitað hefur verið til bankanna beggja í Grundarfirði, Búnaðarbanka og Landsbanka,  eftir styrkjum til útgáfu næstu bókar.

Ákveðið var að bíða fram yfir áramót með frekari styrkjaleit enda þykir stjórnarmönnum mikill atgangur á því sviði í þjóðfélaginu núna mitt í jólaösinni og ekki á bætandi. 

3.                  Bréf frá Ólafi J. Guðmundssyni.

Eyrbyggjum hefur borist bréf frá Ólafi Jóni Guðmundssyni varðandi grein sem birtist í þriðju bók félagsins. Bréfið er svo hljóðandi: 

                                                            Akranesi, 23. nóvember 2002

Ég undirritaður, geri hér með f.h. föður míns, Guðmundar Jóhannessonar, eiganda Krossnesslands, athugasemd við neðangreinda staðhæfingu, sem skráð er í bókina Fólkið, fjöllin, fjörðurinn, safn til sögu Eyrarsveitar 3. hefti.

Í kafla um MB Ingólf SH-152 bls. 75 segir orðrétt: " En hvernig sem þessu var háttað er nokkuð víst að á endanum tapaðist Kvíabryggja úr landi Krossnes þegar gengið var að veðum vegna þessara bátakaupa." Hér er um að ræða túlkun greinarhöfunds, sem ég tel að hann geti ekki rökstutt með gögnum. Hafi hann einhver gögn máli sínu til stuðnings er honum velkomið að senda mér þau til aflestrar. En þar sem þetta mál tengist beint landamerkjadeilu sem er óútkljáð milli Reykjavíkurborgar og eigenda Krossnesslands, og gögn sem málið varða hafa ekki fundist, er þess hér með óskað að þessi klásúla verði strikuð út með leiðréttingu í næsta hefti af sögu Eyrarsveitar.

Einnig skal áréttað vegna nefndrar landamerkjadeilu, varðandi land undir fangelsinu að Kvíabryggju, að það telst ósannað að hluti af landi Krossness hafi tapast vegna ofangreindra bátakaupa, þar sem einungis fasteignir í Bryggjuplássi(öðru nafni Kvíabryggja) voru settar að veði, en ekki jarðeignirnar.

Yður er velkomið að hafa samband við mig í síma 5677250 eða 8466129 ef frekari upplýsinga er óskað.

                                                            Virðingarfyllst,

                                                            ____________________________________

Ólafur Jón Guðmundsson

Stjórnin ákvað að biðja greinarhöfund, Inga Hans Jónsson, að fara yfir málið.

4.                  Efnisöflun í næstu bók.

Kristján Guðmundsson félagsfræðingur sagði frá athugunum sínum á manntalinu sem þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu fyrir Danakonung 1703 og hugmyndum við að yfirfæra mikið magn upplýsinga sem þar finnast í áhugavert lesefni.  Hann lagði fram beinagrind að ritgerðinni og lagði jafnframt á það áherslu að til að gera frásögnina aðgengilega verði nauðsynlegt að gera kort þar sem jarðir og hjáleigur þeirra verði merktar inn og einnig útræðisstaðir.

5.                  Myndasafn Bærings.

Til að varðveita myndasafn Bærings Cecilssonar hefur stjórn Eyrbyggja ákveðið að bjóða fram aðstoð sína við að skanna bæði myndir og filmur.  Eyrbyggjafélagarnir Guðjón Elísson og Sveinn Arnórsson hafa boðist til að vinna þetta mikla verk fyrir Eyrbyggja.

Eftir fundinn ræddi GKH við Pál Cecilsson. Ekki er hægt að vinna við myndasafnið fyrr en formlegum skiptum á dánarbúi Bærings Cecilssonar er lokið og búið er að ganga formlega frá ráðstöfun myndasafnsins sem verður væntanlega í byrjun árs 2003.

Formanni félagsins, Gísla Karel Halldórssyni, var falið að ræða við Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra um það hvernig Grundarfjarðarbær sjái fyrir sér að unnið verði með myndasafn BC.

6.                  Önnur mál.

Myndirnar úr mannlífi frá Grundarfirði sem sýndar hafa verið á góðri stundu eru komnar á geisladisk og eru til sölu í Hrannarbúðinni Grundarfirði.  Fyrsti diskurinn kallast Ískaldur veruleiki, ljósmyndasýning.  Verð hvers disks er þúsund krónur.

7.         Næsti fundur

Næsti fundur var ákveðinn þriðjudaginn 7.janúar 2003.