39. stjórnarfundar Eyrbyggja 7. janúar 2003  kl 20:00 á Cafe Borg í Kópavogi

Viðstaddir: Ásthildur Elva Kristjánsdóttir, Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Pálsson, Hermann Jóhannesson, Hrafnhildur Pálsdóttir, Ásgeir Þór Árnason (sem gestur), Sigurberg Árnason (sem gestur).

1.                  Gerð grein fyrir Framfaraverðlaununum

Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, veittu þremur einstaklingum í Grundarfirði viðurkenningar fyrir vel unnin störf í Krákunni í Grundarfirði laugardaginn 28.desember.

Freyja Bergsveinsdóttir grafískur hönnuður skrautritaði fyrir okkur viðurkenningarskjöl.

Texti viðurkenningarskjalanna var þannig:

Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, veita

Guðjóni Elíssyni

viðurkenningu fyrir mikið og gott starf við skönnun og varðveislu gamalla mynda, og fyrir gerð tölvutækra örnefnamynda frá Eyrarsveit..

Grundarfirði 28. desember 2002.

Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, veita

Inga Hans Jónssyni,

viðurkenningu fyrir öflugt starf við að gera sögu Eyrarsveitar lifandi og áhugaverða og færa hana nær því fólki sem gengur um grundu í dag.

Grundarfirði 28. desember 2002.

Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, veita

Sveini Arnórssyni,

viðurkenningu ,  fyrir góða aðstoð og gott verk við skönnun gamalla mynda frá eldri Grundfirðingum og koma þeim í öruggari varðveislu.

Grundarfirði 28. desember 2002.

2.                  Auglýsing Þjóðhátíðarsjóðs.

Ákveðið var að fela  Gísla að sækja um um styrk til þjóðhátíðarsjóðs fyrir útgáfu næstu bókar.

3.                  Þjóðsögur frá Eyrarsveit

Til eru ýmsar þjóðsögur frá Eyrarsveit og var ákveðið að undirbúa útgáfu á þeim í bókunum, eftir því sem rými er til og eftir því sem hentar.

4.                  Fornleifar Fornu Lá.

Kristján Eldjárn fyrrv. Þjóðminjavörður  og fyrrverandi forseti Íslands var með fornleifauppgröft í  Fornu Lá á árið 1942 og fann þar merkar minjar.  Ákveðið var að undirbúa birtingu þess efnis í næstu bók .

5.                  Myndir Halldórs Péturssonar frá Setbergi.

Halldór Pétursson teiknari er landskunnur fyrir teikningar sínar af þjóðkunnum mönnum og spaugilegum atvikum í þjóðlífinu. Halldór lést fyrir nokkrum árum. Sem unglingur var hann mörg ár í sveit á Setbergi og teiknaði þá margar af sínum fyrstu myndum. Í bók um teikningar  Halldórs er að finna myndir frá Setbergi. Guðlaugi Pálssyni var falið að hafa samband við ættingja Halldórs til að athuga hvort til væri fleiri myndir frá Eyrarsveit eftir hann og hvort Eyrbyggjum væri heimilt að birta þær í bókunum okkar.

6.                  Uppbyggingasaga Grundarfjarðar.

Sigurberg og Gísli eru að undirbúa skráningu inn á loftmyndir sem við keyptum hjá Landmælingum.

7.         Skönnun ljósmynda. Skipulag og skráning.

Sigurberg kom með myndir  sem Einar Ingimundarson málari frá Borgarnesi hafði tekið við höfnina í Grundarfirði. Einar var mörg sumur að mála og taka myndir í Grundarfirði. Myndirnar hafði Sigurberg fengið hjá Ingimundi syni Einars Ingimundarsonar og vonast til að þar séu fleiri myndir frá Grundarfirði.

Ásgeir mun taka að sér að skanna myndirnar.

Ásgeir og Sigurberg ætla að leitast við að fá eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu sem voru búsettir í Grundarfirði til að hittast og skoða gamlar myndir og skrá upplýsingar frá þeim um hvað myndirnar sýna.

Ásgeir kom með gögn og bréf frá Dagmari Árnadóttur frá Hjarðarbóli. Ákveðið var að afhenda bókasafninu í Grundarfirði þessi gögn til varðveislu

Ágeir fékk einnig talsvert af myndum frá henni sem hann er búinn að skanna.

8.         Þróun máls og staðbundið málfar í Eyrarsveit.                                                                                          

Leitað hefur verið eftir því við Höskuld Þráinsson prófessor  að skrifa grein um þróun máls og og staðbundið málfar í Eyrarsveit.

9.         Næsti fundur.

Ákveðið var að halda næsta fund þriðjudaginn 4. febrúar  að Smiðjuvegi 70 á kaffistofu Frostmarks.