Nemendur leikskólans Sólvalla tóku lagið fyrir gesti

Síðastliðinn laugardag var því fagnað að 40 ár eru síðan leikskólastarf hófst í Grundarfirði, en það var þann 4. janúar árið 1977 sem opnaður var leikskóli í húsi grunnskólans. Vel var mætt til afmælishátíðarinnar sem haldin var í Samkomuhúsi Grundarfjarðar en í kjölfarið var opið hús í leikskólanum Sólvöllum þar sem starfsfólk kynnti starf leikskólans frá stofnun hans.

Fyrrverandi og núverandi leikskólastjórar. Sigríður Herdís Pálsdóttir og Matthildur Soffía Guðmundsdóttir hafa báðar verið leikskólastjórar á Sólvöllum. Björg Karlsdóttir er leikskólastjóri Sólvalla í dag.

Björg Karlsdóttir, leikskólastjóri, bauð fólk velkomið og að því loknu ávarpaði Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri, gesti. Nemendur leikskólans Sólvalla voru að sjálfsögðu mættir á afmælishátíðina og sungu hástöfum fyrir viðstadda við góðar undirtektir. Lilja Magnúsdóttir stiklaði svo á stóru yfir sögu leikskólastarfsins í Grundarfirði í máli og myndum.

Matthildur tók við þakklætisvotti frá Grundarfjarðarbæ. Leiddi hún son sinn, Ragnar, upp að sviðinu enda var hann ástæða þess að hún hóf störf við leikskólann í upphafi.

 

Matthildi Soffíu Guðmundsdóttur var veitt viðurkenning frá Grundarfjarðarbæ og þakkir fyrir 40 ára farsælt starf sitt við leikskólamál en hún hefur starfað við leikskólann í bænum frá upphafi og mun láta af störfum fyrir aldurs sakir um næstu mánaðamót. Starfsfólk Sólvalla færði Matthildi einnig gjafir og þakkaði henni samstarfið. Þá fékk Matthildur einnig þakkargjöf frá börnunum í leikskólanum. Sigríður Herdís Pálsdóttir, fyrrum leikskólastjóri Sólvalla, tók til máls og þakkaði Matthildi fyrir góðar móttökur og leiðsögn á fyrstu starfsárum Sigríðar við leikskólastörfin og tók fram að allir leikskólar þyrftu að eiga eina „Möttu“.

Björg Karlsdóttir, leikskólastjóri á Sólvöllum færði Möttu þakkargjafir frá starfsfólki leikskólans fyrir ánægjulegt og gott samstarf um árabil.

Leikskólanum bárust veglegar gjafir við þetta tækifæri frá fyrirtækjum og félagasamtökum í Grundarfirði, samtals fyrir tæplega eina milljón króna. Kvenfélaginu Gleym mér ei, Soffaníasi Cecilssyni ehf., G.Run, Rauða krossinum, Ragnari og Ásgeiri, Lions og Arion banka eru færðar hjartans þakkir fyrir höfðinglegar og veglegar gjafir.