Stjórnarfundur 10. janúar 2000 kl 20 í Perlunni.

Mættir: Hildur Mósesdóttir , Sigurður Hallgrímsson og Hermann B. Jóhannesson og Gísli Karel Halldórsson. Ólafur Hjálmarsson komst ekki vegna vinnu og Elinbjörg Kristjánsdóttir hafði tilkynnt forföll. 
 

1. GKH gerði grein fyrir afhendingu á ,,Framfaraverðlaunum Eyrbyggja 1999” . Viðurkenninguna hlutu foreldrasamtökin Tilvera og fyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. Afhent var viðurkenningarskjal og gripur eftir Inga Hans Jónsson.  Skýringartexti Inga Hans sem fylgdi gripnum hljóðar þannig:

,,Örvar Eyrbyggjanna hafa margræða merkingu. Þær minna okkur á sögu sveitar og forna frægð. Þær vitna um að verðlaunahafarnir hafa náð vopnum sínum í þeim verkefnum sem þeim eru hjartfólgin. Steinninn er tákn þess lands sem við byggjum og þeirrar auðlegðar sem það gefur. Örvarnar tvær eru tákn um að úr þeim jarðvegi er auðlegð okkar sprottin. Stærri örin er tákn um unna sigra, en hin minnir okkur stöðugt á að ekkert takmark er í raun endanlegt."

 

2. GKH bar stjórninni góðar kveðjur og hlý orð sem Björg sveitarstjóri flutti við afhendingu framfaraverðlaunanna.

 

3. Ólafur Hjálmarsson kom þeim boðum á fundinn að hann hefði komist yfir tjakk sem notaður var við að lyfta þaki Kaupfélagsins fyrir um 40 árum. Ólafur hyggst gera tjakkinn upp, og þannig tekst okkur að gera söguna um þennan atburð meira lifandi. 

 

4. Lýsingar á fiskimiðum. Ólafur Hj. hefur loforð um gögn frá Kjartani í Nýjubúð og Ella Guðjóns. Einnig hafði hann frétt af góðum lýsingum hjá Runólfi á Fagurhól. Ólafur mun reyna að afla þeirra gagna. Hermann sagði að Pétur Sigurjónsson ætti talsvert af lýsingum á fiskimiðum. Fulltrúi okkar mun hafa samband við Pétur og kanna hvort möguleiki sé á að koma lýsingunum í bókina.

 

5. GKH afhenti Hermanni gögn um fermingarárganga 1971-1999. Elinbjörg og Hermann munu koma þeim gögnum á tölvutækt form eins og gert var fyrir árgangana 1940-1970.

 

6. GKH sagði frá fyrstu viðræðum sem hann átti milli hátíðanna við útgáfufyrirtækið ,,Mál og mynd” um útgáfu á ritinu fyrir næsta sumar. Ákveðið að GKH og Hermann ræði við útgáfufyrirtækið nú í vikunni og kanni hvort grundvöllur sé fyrir samkomulag um útgáfuna. 

 

7. Magnús Soffaníasson í Grundarfirði hefur unnið fyrir Eyrbyggja við gerð heimasíðu. Vinnan er komin nokkuð af stað en Magnús hyggst vinna við heimasíðugerðina af krafti nú í janúar. Á heimasíðunni verða fundargerðir, samþykktir eða lög félagsins. Einnig kom fram hugmynd um að setja inn á heimasíðuna gamlar myndir frá Grundarfirði ásamt spurningum um hvað myndin sýndi. Sá sem skoðaði myndirnar á heimasíðunni gæti sent skeyti til baka með upplýsingum ef hann þekkti myndina.

 

8. Sigurður Hallgrímsson fór með segulband í heimsókn til Péturs Sigurðssonar. Pétur sagði honum frá sjóslysi 1918 þar sem fimm menn fórust, meðal annarra langafi Hildar Mósesdóttur sem er með okkur í stjórninni. Sigurður hefur í hyggju að fá nánari upplýsingar og skrifa um þennan atburð og afleiðingar hans. Sigurður stefnir að því að vera kominn með drög að texta á blað fyrir næsta stjórnarfund eftir fjórar vikur.

 

9. Hermann sýndi manntöl frá 1901 og 1930. Halldóra tók að sér að slá það inn og koma því á tölvutækt form. 

 

10. Hildur tók að sér að athuga með að láta teikna upp verðlaunagripinn sem Ingi Hans gerði fyrir Eyrbyggja. Í framhaldi af því verður athugað með að nota það sem ,,Logo” efst hægra megin á bréfsefni Eyrbyggja.

 

11. Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 7. febrúar 2000 kl 20 í Perlunni.

12. Fundi slitið.