Stjórnarfundur Eyrbyggja í Perlunni 6. mars 2000.

Viðstaddir: Elinbjörg Kristjánsdóttir, Sigurður Hallgrímsson, Hildur Mósesdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Gísli Karel Halldórsson

1. Skólamál. Í fjölmiðlum í dag var sagt frá þeim ánægjulegu tíðindum að sveitarfélögin á norðanverðu    Snæfellsnesi ætli í samstarf um skólamál. Í því felst að skólaskrifstofa svæðisins verður staðsett í Snæfellsbæ og nýr fjölbrautarskóli fyrir Snæfellsnes verði staðsettur í Grundarfirði. Jafnframt hyggjast sveitarfélögin vinna saman að því að fá nýja brú yfir Kolgrafarfjörð. Stjórn Eyrbyggja er sammála um að sveitarfélögin hafi hér tekið gæfuspor og samstarf þeirra muni væntanlega efla og styrkja alla uppbyggingu á Snæfellsnesi.

 

2. Rætt um styrkumsókn Eyrbyggja í menningarsjóð Sjóvár-Almennra til útgáfunnar. Niðurstaða liggur ekki fyrir.

 

3. Eyrbyggjar munu vinna með ,,Sögunefnd Grundarfjarðar” að útgáfu á heftum sem innihalda ,,Safn til sögu Eyrarsveitar”. Haldinn verður símafundur með sögunefndinni í vikunni og unnið að framgangi málsins.

 

4. Gísli og Elinbjörg heimsóttu Helgu Gróu Lárusdóttur og Hannes Finnbogason. Helga er fædd 1924, og hún fékk myndavél í fermingargjöf 1938. Helga lánaði Eyrbyggjum fimm myndir teknar árin 1938 og 39 til eftirtöku og til birtingar í útgáfunni. 

 

5. Hannes Finnbogason hefur afhent Eyrbyggjum grein með frásögn Valdimars Jóhannssonar frá Kljá í Helgafellssveit, en Valdimar bjó lengi í Grundarfirði og á þar sterkan ættboga. 

 

6. Merki Eyrbyggja. Hildur sýndi nokkrar tillögur að merki Eyrbyggja. Samþykkt að bera tillögurnar undir Freyju Bergsveinsdóttur, sem er grafískur hönnuður, og fá hennar tillögur að útfærslu.

 

7. Vatnsveita Grundarfjarðar. Gísli er byrjaður að safna efni um sögu Vatnsveitunnar frá 1940. Sigurður Hallgrímsson og Gísli munu heimsækja Pétur Sigurðsson og fá upplýsingar um fyrstu vatnsveitu Frystihússins og hvaða hús voru tengd veitunni. 

 

8. Fermingarárgangar. Elinbjörg er komin með alla árganga 1940-1999, nema 1984.

 

9. Saga fræðslumála . Sigurður varpaði fram þeirri hugmynd að fá skrifaða sögu fræðslmála Eyrarsveitar. Sigurður mun ræða við Jens Hallgrímsson kennara og fermingarbróður sinn og athuga hvort hann vilji taka að sér að skrifa um skólamálin.

 

10. Vísur Árna Hallgrímssonar. Eyrbyggjar hafa fengið í hendur vísur eftir Árna Hallgrímsson frá Látravík. Árni er fæddur 1926. 

 

Grundarfjörður.

Hér ég áður byggði ból
bjó og tryggðir festi
Heilsar nú með sumri og sól
sveitin mér sem gesti.

Þó í huga hryssings él
hlaði kóf að fæti.
Viðmót hlýtt og vinarþel
víða hér ég mæti.

Grundarfjörður góði vin
gömul fyrri kynni.
Þú munt jafnt við skúr og skin
skýr mér vera í minni.

Því er ég til ferða fús
fýsir engu að gleyma
Finnst mér oft við föðurhús
fyrst þá sé ég heima.
 

11. Næsti fundur verður í Perlunni kl 20 mánudaginn 3. apríl 2000.