Vöfflur og ljósmyndasamkeppni

 

Fimmtudaginn 7. nóvember verður opið hús í Sögumiðstöðinni. Starfsmenn munu steikja vöfflur og bjóða upp á kaffi. Á sama tíma verða ljósmyndir úr ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar til sýnis í Bæringsstofu. Myndefnið í ár var fjaran og voru þátttakendur 19 með um 70 myndir. Úrval ljósmynda mun einnig hanga uppi á meðan að hátíðinni stendur en verðlaun verða veitt laugardaginn 9. nóvember.

Meðan að gestir gæða sér á vöfflum verða Bókaverðlaun barnanna veitt. Almennings og skólabókasöfn landsins veita verðlaunin hvert ár fyrir tvær bækur, aðra frumsamda og hina erlenda. Á Bókasafni Grundarfjarðar verður dregið úr innsendum seðlum og bókaverðlaun veitt tveimur börnum, öðru úr 1.-3. bekk og hinu úr 4.-6. bekk.

Ostaskólinn í Grundarfirði

Um árabil hefur sérvöruverslunin Búrið í Nóatúni rekið ostaskóla við gífurlegar vinsældir. Nú ætlar ostaskólinn í fyrsta sinn að leggja land undir fót og heimsækja okkur íbúa Grundarfjarðar. Sælkerinn Eirný Sigurðardóttir mun leiða okkur inn í heim ostanna af sinni alkunnu snilld. Hún mun einnig fræða okkur um vín og samspil þessara tveggja afurða á bragðlaukanna. Þemað er Frakkland og því eingöngu franskir ostar og vín á boðstólum. Nemendur fá að smakka á allmörgum tegundum osta og má segja að námskeiðið jafngildi heilli máltíð. Skráning fer fram á bæjarskrifstofunni eða í netfang alda@grundarfjordur.is  Skólagjaldið er 4.900 krónur. 

Skemmtikvöld nemendafélags FSN

Nemendafélag FSN ætlar að halda eitt af skemmtikvöldum vetrarins fimmtudaginn 7. nóvember. Það er engum blöðum um það að fletta að aðal númer kvöldsins er stjarnan Friðrik Dór. Hann mun halda tónleika og skemmta nemendum skólans. Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangseyrir 1.500 krónur.  Auk tónleikanna verður fjölbreytt dagskrá á skemmtikvöldinu.