Á góðri stund í Grundarfirði, okkar árlega bæjarhátíð, verður nú haldin í 8. sinn dagana 22.- 24. júlí nk. Uppsetning dagskrárliða verður að mestu með hefðbundnu sniði, þó alltaf sé um einhverjar breytingar milli ára.

Á síðasta ári þótti hátíðin takast með afbrigðum vel, enda tóku allir bæjarbúar ásamt gestum sínum fullan þátt í undirbúningi og framgangi hátíðarinnar. Var það vegna hinna frábæru hverfahátíða sem haldnar voru í fyrsta sinn. Það má eiginlega segja að hátíðin hafi byrjað mörgum vikum fyrir hina eiginlega hátíð, því undirbúingsfundir hverfanna voru haldnir með reglulegu millibili allan júlímánuð, og náði svo hámarki á fimmtudagskvöldinu þegar íbúar geystust fram með skreytingar í sínum hverfalitum.

Bænum er skipt niður í fjögur hverfi sem hvert hefur fengið sinn lit til að skreyta. Gulur, rauður, grænn og blár eru litir Grundarfjarðar þessa helgi. Hugmyndaauðgi fólksins í Grundarfirði hefur engin takmörk og frumlegar skreytingar og skemmtilegar útfærslur mátti sjá hvarvetna og verður eflaust engin breyting þar á í sumar.

En hugum nú að dagskrá Góðrar stundar í ár. Tónlist og söngur skipa veglegan sess í dagskránni í ár sem og endranær. Sálin hans Jóns míns hyggst sækja okkur heim á föstudagskvöldið með dansleik í samkomuhúsinu, Sex í sveit heldur útgáfutónleika, Friðrik Vignir verður einnig með tónleika, sem og ungar hljómsveitir. Börnin okkar æfa nú að kappi og munu syngja okkur til yndis og ánægju. Rauðir fiskar og Feik munu þenja raddbönd og slá á strengi, atriði úr hinni vinsælu Ávaxtakörfu, hálandaleikar sterkustu manna Íslands, grillveisla, bryggjuball, dorgveiðikeppni, viðavangshlaup, fótbolti, leiktæki fyrir börnin og unglingadansleikir.

Dagskráin er óðum að fyllast og hér er aðeins talið upp brot af því sem við munum koma til með að sjá og heyra á okkar skemmtilegu bæjarhátíð. Dagskrána má svo sjá von bráðar hér á grundarfjordur.is auk þess að verða dreift með Vikublaðinu Þey um allt Snæfellsnes miðvikudag fyrir hátíð.