Bæjarhátíð Grundarfjarðar verður haldin síðustu helgi í júlímánuði, dagana 28. – 30. Á hátíðinni verður að finna margar uppákomur sem hafa verið áður, og hefð er komin fyrir en einnig verður bryddað uppá nýjungum.

 

Bænum er skipt niður í fjögur hverfi sem hvert hefur fengið sinn lit til að skreyta. Gulur, rauður, grænn og blár eru litir Grundarfjarðar þessa helgi. Hugmyndaauðgi fólksins í Grundarfirði hefur engin takmörk og frumlegar skreytingar og skemmtilegar útfærslur mátti sjá hvarvetna í fyrra og verður eflaust engin breyting þar á í sumar.

 

Á hátíðinni verður að finna mörg skemmtileg atriði og áhugaverðar uppákomur.

 

Á fimmtudeginum verða hverfin skreytt og verður gaman að sjá hverjir standa sig best. Að lokinni skreytingu geta Grundfirðingar skellt sér á upphitunardansleik á Krákunni.

 

Á föstudeginum ber hæst stórdansleikur með Pöpunum í samkomuhúsinu. Stórkostleg grillveisla verður haldin í boði fyrirtækjanna Samkaup strax og Kaffi 59. Hin árlega brenna verður haldin á Grundarkampi, frábært fyrir alla fjölskylduna. Jazzkvartettinn Póstberarnir spila á Hótel Framnesi.

 

Á laugardeginum verða hálandaleikar haldnir með pompi og prakt. Hið árlega bryggjuball verður á sínum stað og mun hljómsveitin Feik sjá um það, með aðstoð nokkurra leynigesta. Bryggjuballinu lýkur með sæbrennu. Tónleikar verða haldnir á vegum Fjölbrautaskólans, þar sem ungir og efnilegir tónlistarmenn láta til sín taka. Kajakferðir verða á boðstólnum, og alþjóðakaffi verður í Sögumiðstöðinni. Um kvöldið verða böll bæði á Krákunni og Kaffi 59. Síðast en ekki síst má nefna hátíðardagskrá á hafnarsvæðinu, þar sem Gunni og Felix kynna og skemmta, og hverfahátíðin sívinsæla. Einnig verður víðavangshlaup.

 

Á sunnudeginum verður dorgveiðikeppni fyrir yngri kynslóðina, sem lýkur með verðlaunaafhendingu og barnaskemmtun. Ingi Hans verður með sögugöngu. Einnig verður haldið uppá 40 vígsluafmæli Grundarfjarðarkirkju, og mun Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup heiðra okkur með nærveru sinni. Opna Soffamótið í golfi verður einnig á dagskrá á sunnudeginum.

 

Einnig verður margt fleira í gangi. Þar má telja:

  • Leiktæki á hafnarsvæði.
  • Útvarp Grundarfjörður
  • Kaffihús í vigtarskúrnum
  • Berserkur – Listahátíð ungs fólks
  • Gönguferðir á Kirkjufell undir leiðsögn
  • Kvikmyndasýningar af ýmsum toga í Sögumiðstöð
  • Sölubásar á hafnarsvæði
  • Myndlistar- og ljósmyndasýningar út um allan bæ
  • Leikjanámskeið undir leiðsögn Arnar Inga

 

Dagskrána má svo sjá í heild sinni von bráðar hér á grundarfjordur.is auk þess að verða dreift með Vikublaðinu Þey um allt Snæfellsnes miðvikudag fyrir hátíð.

 

Þetta er það sem er komið í dag, en búast má við að fleiri atriði detti inn því nóg er víst af hæfileikafólki hér á Grundarfirði. Ef einhverjir hafa áhuga á að skella sér í fjörið er um að gera að hafa samband við Jónas Víði Guðmundsson í síma 849-3243 eða með tölvupósti: jonas@grundarfjordur.is.