Þeir stóru atburðir sem gerst hafa undanfarna daga og vikur í efnahagslífi Íslands láta engan ósnortinn.  Allir verða fyrir áfalli við þær fréttir sem borist hafa.  Margir verða fyrir fjárhagslegum skaða vegna hækkandi skulda, lækkunar og jafnvel hruns á verði hlutabréfa og margvíslegra óþæginda sem erfiðleikar bankanna valda fólki.  Við þessar aðstæður er mikilvægt að halda ró sinni, horfast í augu við vandann, en láta hann ekki buga sig.  Nokkur atriði er vert fyrir okkur öll að hafa í huga við þessar aðstæður:

  • Það er aldrei öll von úti - alltaf birtir upp um síðir.
  • Tölumvarlega - hræðum ekki börnin eða aðra.
  • Fjölskyldur ættu að ræða saman yfirvegað - um að gera að ræða við einhvern ef líðanin er slæm.
  • Þaðer fólk til staðar fyrir utan fjölskylduna sem er einnig reiðubúið til að hlusta og aðstoða við að finna leiðir - prestar - heilsugæslan - bæjaryfirvöld - félagsþjónustan - ráðgjafarstofa heimilanna og bráðum verða opnaðar sérstakar ráðgjafarstofur á vegum félagsmála- og tryggingaráðuneytisins.
  • Það er hollt í erfiðleikum að rifja upp og fara yfir hvaða hlutir eru þó jákvæðir í öllu saman og það, að auðsæld er ekki eingöngu talin í fjármunum.
  • Það getur verið gott fyrir hópa að koma saman, t.d. til þess eins að fara í göngutúr og spjalla létt saman á meðan.

Við sem þjóð munum vinna okkur út úr þessum hremmingum sem nú ríða yfir eins og öllum öðrum sem komið hafa.  Hversu langan tíma það tekur vitum við ekki núna, en því fyrr sem við hefjumst handa, því styttra verður í góða stöðu að nýju.

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri.