Fulltrúar Grundarfjarðarbæjar fóru þann 26. ágúst sl. á fund með sérfræðingum á sviði hitaveituframkvæmda frá Íslenskum orkurannsóknum og Verkfræðistofunni Fjarhitun ehf. Á fundinum var m.a. rætt um virkjun holunnar við Berserkseyri og hvað væri til ráða varðandi efnisval á stofnlögn með tilliti til efnainnihalds vatnsins. Eins og áður hefur komið fram er efnainnihalds vatnsins með þeim hætti að hætta er á tæringu og þarf því að vanda vel til verka við val á lögnum.

Sérfræðingarnir tilgreindu ýmsar lausnir sem mögulegar væru til þess að leggja hitaveituvatnið til Grundarfjarðar með tilliti til efnainnihalds þess.

 

Í framhaldi af fundinum fór fulltrúi bæjarráðs ásamt byggingarfulltrúa á fund með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar sama dag. Tilgangur fundarins var að semja við Vegagerðina um frestun á lögn stofnlagnar í fyllingu nýs vegar yfir Kolgrafarfjörð. Vegagerðin samþykkti að fresta lagningu stofnæðarinnar þar til síðar og verður hún þá lögð annað hvort í vegöxl vegarins eða ofanjarðar, innan við vegrið. Hitaveitunefnd telur að frestunin hafi verið nauðsynleg svo betri tími gefist til hönnunar og efnisvals fyrir veituna í heild sinni og stofnæðar fyrir lögn hitaveitu frá Berserkseyri til Grundarfjarðar.