Sunnanhvassviðrið sem gengur nú yfir landið er farið að réna í Grundarfirði og þegar þetta er ritað, um 23-leytið, er meðalvindhraði kominn í 19 m/sek af SSA. Vindhraðinn var mestur um 26 m/sek milli 18 og 20 í kvöld og fór mest í um 34-36 m í hviðum (Grundarfj.) á sama tímabili. Töluverð úrkoma hefur fylgt lægðinni.

 

 

Liðsmenn Björgunarsveitarinnar Klakks og bæjarverkstjóri fóru á vettvang um kl. 20 í kvöld og „yfirfóru“ bæinn. Eitthvað var um girðingar sem þurfti að eiga við, en að öðru leyti virtist fólk hafa verið vel undir storminn búið og lítið sem ekkert um lausa hluti á ferðinni.