Ársreikningar Grundarfjarðarbæjar A- og B- hluta sjóða fyrir árið 2014 voru lagðir fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar 14. apríl  2014. Alls samanstanda reikningarnir af 10 sjóðum, sem skiptast í þrjá A-hluta sjóði og sjö B-hluta sjóði.

Heildartekjur samstæðunnar allrar voru 869,7 m. kr., en heildarútgjöld hennar þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta að fjárhæð 48,9 m. kr. voru 763,9 m. kr.

 

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var því jákvæð í samstæðunni um 105,8 m. kr. Að teknu tilliti til niðurstöðu fjármagnsliða að fjárhæð 63,9 m. kr., í gjöld umfram tekjur, kemur í ljós að samstæðan öll var rekin með 41,9 m. kr. hagnaði árið 2014. 

 

Niðurstaða þessi er talsvert betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins, sem skýrist fyrst og fremst á hækkun tekna og því að verðbreytingar ársins voru minni en ráð hafði verið fyrir gert.

 

Heildarskuldir sveitarfélagsins og skuldbindingar lækka um 33,9 m. kr. Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum hefur lækkað úr 173,1 % í 161,1 %. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Ráðgert er að því marki verði náð árið 2018.

 

Í  sjóðstreymi samstæðunnar kemur fram, þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum, verðbótum- og gengismun, að veltufé frá rekstri er 105,7 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 80,8 m.kr., þegar tekið hefur verið tillit til breytinga á rekstrartengdum eignum.

 

Fjárfestingar voru 50,9 m.kr. nettó. Afborganir lána og breyting á íbúðarétti voru 108,5 m. kr., en á móti voru tekin ný lán að fjárhæð 60 m. kr. og gengið á handbært fé sem var 63,5 m. kr. í upphafi ársins en er 44,8 m. kr. í árslok.

 

Grundarfirði 14. apríl 2015

 

Þorsteinn Steinsson

Bæjarstjóri

Grundarfriði