Sem kunnugt er hafa Grundarfjarðarbær og bærinn Paimpol á Bretagne-skaga í Frakklandi haft með sér óformlegt vinabæjasamband. Grundfirðingar hafa orðið varir við mikinn áhuga Frakkanna á auknum samskiptum, m.a. á menningarsviðinu og nú hefur Grundfirðingum borist boð um að senda fulltrúa sína til að vera viðstaddir opnun ljósmyndasýningar í janúar 2005.

Um er að ræða ljósmyndir fransks ljósmyndara úr heimsókn hans til Íslands. Þegar hafði verið ákveðið að grunnskólanemar úr Grundarfirði heimsæki Paimpol vorið 2005 og að franskir nemendur endurgjaldi heimsóknina.

Fyrr á þessu ári setti bæjarstjórinn í Paimpol á laggirnar sérstaka nefnd til að undirbúa og gera tillögur um aukin tengsl og samskipti bæjanna. Nefndin hefur verið í sambandi við bæjarstjórann í Grundarfirði og lýst yfir áhuga á auknum samskiptum, s.s. með gagnkvæmum heimsóknum listamanna, t.d. þannig að Grundfirðingar myndu senda tónlistar- eða myndlistarmenn, ljósmyndara eða aðra, með sýningar til Paimpol og að Paimpol-arar myndu svo endurgjalda með heimsókn sinna listamanna til Grundarfjarðar.

Fræðslu- og menningarmálanefnd Grundarfjarðarbæjar hefur verið falið að fjalla um hugmyndir um aukin samskipti bæjanna.