Álagningu fasteignagjalda 2024 er nú lokið.

Eins og undanfarin ár verða ekki sendir útprentaðir álagningarseðlar í pósti, en álagning birtist í vefgátt Þjóðskrár, Ísland.is (island.is) Gjaldendur geta skráð sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Greiðsluseðlar verða sendir rafrænt í heimabanka gjaldenda.

Gjalddagar fasteignagjalda eru tíu, líkt og fyrri ár. Fyrsti gjalddaginn er 1. febrúar og eindagi er 30 dögum síðar.

Vatnsgjald er innheimt af Veitum ohf. (dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur). Fyrirspurnum um vatnsgjald skal beina til Veitna í síma 516 6000 eða með tölvupósti á netfangið veitur@veitur.is

Afsláttur fasteignaskatts til tekjulágra eldri borgara og öryrkja er veittur í samræmi við reglur sem bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur sett (sjá hér fyrir neðan). Afsláttur reiknast sjálfvirkt út frá upplýsingum Ríkisskattstjóra og er miðað við tekjur ársins 2022, skv. skattframtali 2023.

Heildarálagning fasteignagjalda að fjárhæð 25.000 kr. og lægri kemur óskipt til greiðslu á einum gjalddaga, þann 1. maí 2024.

Breytingar á meðhöndlun úrgangs og breyting á gjaldskrá

Á liðnu ári var unnið að undirbúningi breytinga á sorpmálum sem koma til framkvæmda á vormánuðum 2024, í samræmi við breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Nú er gerð krafa á landsvísu um flokkun á heimilisúrgangi í sex flokka. Fjóra flokka er sveitarfélögum skylt að sækja heim að húsvegg hjá íbúum; plast, pappa, lífrænan úrgang og blandaðan heimilisúrgang – hvern flokk í sér íláti. Það þýðir að breytingar verða gerðar á tunnukerfi heimilanna og fjórðu tunnunni bætt við á vormánuðum, auk þess sem heimilistunnur verða endurmerktar til að fólk geti flokkað rétt heima hjá sér. Á litlum móttökustöðvum (grenndarstöðvum) verður svo tekið við málmum og gleri, en grenndarstöðvum verður komið upp á einum stað í þéttbýli og tveimur í dreifbýli. Tíðni sorphirðu mun einnig breytast með breyttu fyrirkomulagi.

Breyttar kröfur laga og fyrirkomulag sorpmála mun óhjákvæmilega skapa aukinn kostnað við málaflokkinn. Í samstarfi við Snæfellsbæ bauð Grundarfjarðarbær út sorphirðu og meðhöndlun úrgangs, en samningar beggja sveitarfélaga við verktaka sína voru að renna út. Útboðið byggir á nýju fyrirkomulagi í sorpmálum og er nú unnið úr tilboðum sem opnuð voru 24. janúar sl.

Sveitarfélögum hefur um nokkurt skeið verið skylt samkvæmt lögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs og að sjá til þess að álögð gjöld standi undir raunkostnaði við sorpmálin eða séu sem næst honum. Því marki höfum við aldrei náð og hefur hlutfall sorpgjalda verið í kringum 50-60% af raunkostnaði við sorpmálin. Nú eiga sveitarfélög landsins ekki lengur kost á að hafa hlutfall innheimtra gjalda þannig.  

Um áramótin var innleitt nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs hjá Grundarfjarðarbæ, í samræmi við breytingu laga um meðhöndlun úrgangs. Uppbygging gjaldskrár breytist nokkuð og gjöldin hækka óhjákvæmilega. Reynt var þó að stilla upp fyrirkomulagi úrgangsmála sem skilar sem hagkvæmastri niðurstöðu fyrir íbúana, ekki síst kostnaðarlega séð. Útboð og nýr sorphirðusamningur sem gera þarf í kjölfarið skapar þó enn óvissu um heildarkostnað.

Þrátt fyrir að fyrirkomulag flokkunar og nýjar kröfur séu ófrávíkjanlegar, þá hafa íbúar ákveðinn sveigjanleika til að hafa áhrif á kostnað sinn. Dæmi um það er að íbúar fjölbýlishúsa (t.d. í „blokk“, parhúsi eða raðhúsi) geta sameinast um tunnur og komið í veg fyrir að verið sé að losa hálftómar tunnur við mörg hús og þannig lækkað eða deilt kostnaði. Við undirbúning álagningar gjalda nú í janúar var haft samband við þó nokkra húseigendur þar sem óvissa þótti um fyrirkomulag, út frá tunnutalningu sl. sumar. 

Athugið að heildarálagning sorpgjalda í ár miðast við að gjaldskrá og fyrirkomulag breytist á vormánuðum, en ekki strax við áramótin.

Margar áskoranir fylgja þessum breytingum sem verða kynntar nánar á næstunni og leitað eftir samvinnu við íbúa þannig að vel megi takast til. Íbúðareigendur geta þá átt kost á að gera breytingar, sem hafa áhrif á gjöld þeirra.

Klippikort

Vegna breytinga á sorpmálum verða klippikort ekki send út í ár. Margir íbúar eiga klippikort fyrri ára og er fólk hvatt til að nýta þau. Ef íbúa vantar klippikort er hægt að nálgast þau með því að koma eða hafa samband við bæjarskrifstofuna, Borgarbraut 16 - sími 430-8500. Eitt kort er fyrir hverja fasteign. Klippikort sem hafa verið send undanfarin ár eru því enn í gildi, þar til annað fyrirkomulag verður kynnt.

Breytingar vegna fráveitumála og breyting á gjaldskrá fráveitu

Sú breyting er gerð frá janúar 2024 að virkjað er ákvæði í 6. gr. fráveitusamþykktar Grundarfjarðarbæjar um hreinsun rotþróa. Í greininni segir: "Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá fráræsum húseigna um rotþrær og siturleiðslur [...] Húseigandi kostar niðursetningu og annan frágang rotþróa og lagna. Húseigandi kostar allt viðhald, en sveitarfélagið sér um hreinsun rotþróa."

Sú breyting er þá gerð núna að sveitarfélagið tekur að sér að annast hreinsun rotþróa frá heimilum og sumarhúsum í dreifbýli. Hreinsun mun þá fara fram á einhverra ára fresti og leggur sveitarfélagið á sérstakt hreinsigjald til að standa undir þeirri þjónustu. Þetta er fyrirkomulag sem tíðkast í flestum sveitarfélögum.

Framkvæmdin á þessari hreinsun verður mótuð frekar í samráði við húseigendur í dreifbýli og kynnt á næstu mánuðum. Ekki hefur verið ákveðið hvort hreinsun fari fram strax á þessu ári. 

Nánar

Ef spurningar vakna um nýtt fyrirkomulag eða innheimtu gjalda má hafa samband við bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is

Sjá nánar:

Álagningarákvæði fasteignagjalda 2024

Reglur um afslátt af fasteignaskatti 2024

Gjaldskrá um móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs  

Gjaldskrá fyrir fráveitu