Þessa daga eru að berast með póstinum álagningarseðlar fasteignagjaldanna fyrir árið 2007.  Eins og kunnugt er, voru fasteignir í þéttbýli Grundarfjarðar endurmetnar á síðasta ári.  Heildarbreyting á fasteignamatinu varð allnokkur til hækkunar.  Við þessu var brugðist í bæjarstjórninni og álagningarprósentur fasteignaskattsins voru lækkaðar.  Mest var álagningarprósentan lækkuð á íbúðarhúsnæði eða úr 0,45% í 0,34%.  Lóðarleiga var sömuleiðis lækkuð úr 1,5% í 0,8% á íbúðarhúsnæði.  Álagningarprósentur fasteignaskatts og lóðarleigu á atvinnuhúsnæði voru einnig lækkaðar.  Vatnsgjald er lagt á fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samanstendur af "föstu gjaldi" sem lagt er á alla matshluta íbúðarhúsnæðis (ekki bílskúra) og breytilegu gjaldi sem miðast við fermetrafjölda eigna. 

Sorpgjöld eru fastar krónutölur annars vegar fyrir sorphirðuna og hins vegar fyrir sorpeyðinguna.  Á álagningarseðlunum koma þessar álögur í einni tölu, en eru sundurliðaðar í skýringum á bakhlið álagningarseðilsins.  Vonandi gengur öllum vel að átta sig á álagningarseðlunum, en ef einhver óvissa er um tölur og prósentur eru starfsmenn á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar reiðubúnir til þess að upplýsa og aðstoða eftir föngum.  Ef ekki reynist unnt að upplýsa einhver atriði um leið, er erindið skráð og það tekið í nánari skoðun.