Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 17. apríl 2012 var lögð fram aðsend ályktun sem send var öllum sveitarfélögum á landsbyggðinni um frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða.

 

„Bæjarráð Grundarfjarðar tekur undir fyrirliggjandi ályktun/undirskriftarsöfnun um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, þar sem Alþingi er sterklega varað við því að samþykkja þau.

Bæjarráð skorar á stjórnvöld að leiða sjávarútvegsmál til lykta með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt náist í sjávarútvegi og allri annarri auðlindanýtingu.

Bæjarráð Grundarfjarðar gerir einnig kröfu um að jafnræðis verði gætt við gjaldtöku náttúruauðlinda og komi til aukinnar gjaldtöku á sjávarútveginn renni hluti hennar til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en ekki beint til landshlutasamtaka.


Þá vill bæjarráð minna á að skerðing þorskkvóta um 30% árið 2007 olli Grundarfirði verulegum skakkaföllum og er mikilvægt að sú skerðing gangi til baka.

 

Einnig mótmælir bæjarráð fyrirhugaðri skerðingu á föstum bótum vegna brests á veiðum á hörpuskel.“