Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi þann 8. október 2009 þar sem bæjarstjórnin harmar framkomnar hugmyndir stjórnvalda sem hafa neikvæð áhrif á landsbyggðina:

 

,,Bæjarstjórn Grundarfjarðar skilur og tekur undir það að allir landsmenn þurfi að taka á sig auknar byrðar vegna ástandsins í samfélaginu, en mótmælir því harðlega að vegið sé að landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið.

Uppgangur og þensla sem var á Íslandi síðastliðin ár var nánast að öllu leyti á höfuðborgarsvæðinu og nú þegar kreppir að, er augljóst að mati bæjarstjórnar Grundarfjarðar, að þar þurfi hagræðing fyrst og fremst að fara fram.  Það er mat bæjarstjórnarinnar að fjölmargar stærri stofnanir og embætti megi sameina og draga saman á höfuðborgarsvæðinu.  Slík aðgerð er vænlegri, vegna stærðar og umfangs stofnananna, til þess að spara umtalsverða fjármuni í rekstri ríkisins.  Að leggja niður nokkur tveggja til tíu starfsmanna embætti á landsbyggðinni, þjónar þeim tilgangi einum að gera búsetuskilyrði lakari og draga íbúa til suðvesturhornsins.  Að auki liggur fyrir að viðkomandi starfsemi, sem nú er staðsett víða utan höfuðborgarsvæðisins, mun verða sinnt frá Reykjavík eða frá örfáum stærri byggðakjörnum þannig að vandséð er í hverju sparnaðurinn liggur.  Kostnaður íbúa í dreifbýli mun hins vegar margfaldast við það eitt að sækja opinbera þjónustu sem íbúar höfuðborgarsvæðisins telja að tilheyri almennum mannréttindum að hafa innan seilingar.

 

Tillögur sem fela í sér aukna embættismannavæðingu og miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu eru að auki til þess fallnar að rjúfa tengsl við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.  Þær tillögur sem komið hafa fram, svo sem fyrningarleið fiskveiðiheimilda,  takmarkanir á útflutningi á ferskum fiski, ásamt hindrunum vegna mögulegrar atvinnuuppbyggingar í stóriðju og á fleiri sviðum, eru ekki til þess fallnar að stuðla að jákvæðri uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.“