- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Framkvæmdir austan við fossinn
Hafnar eru framkvæmdir við að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn á áningarstaðnum við Kirkjufellsfoss. Um er að ræða einn áfanga af fleirum, en unnið hefur verið eftir áætlun um uppbyggingu svæðisins og í samræmi við deiliskipulag þess frá 2018.
Framkvæmdirnar nú felast í að búa til útsýnispalla austan megin við fossinn. Um er að ræða göngustíg sem leiðir að þremur útsýnispöllum sem gerðir eru úr steinsteypu og stáli, hver í sinni hæð. Göngustígurinn leiðir niður að fyrsta útsýnispallinum og frá honum verða stáltröppur sem leiða að næsta útsýnispalli og síðan að stáltröppum sem leiða að þriðja og síðasta útsýnispallinum. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins og hönnun verður stígurinn vestan megin við fossinn afmáður og gúmmígrindur sem þar eru verða fjarlægðar í lok framkvæmda.
Laugardaginn 6. september sl. var efsti pallurinn steyptur. Unnið er að stálsmíði á pöllum og handriðum í vélsmiðju og var efsti pallurinn, með handriðum fluttur á staðinn um miðjan september. Næst a´ dagskrá er að steypa miðjupallinn og leggja svo stáltröppur frá honum, og neðsti pallurinn verður steyptur síðastur. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í október.
Það er Landslag, arkitektastofa, sem hefur séð um hönnun á svæðinu, m.a. á þessum pöllum, en Verkís sá um burðarþolshönnun. Verkís hefur einnig með höndum verkeftirlit fyrir hönd framkvæmdaraðila, sem er Grundarfjarðarbær í samvinnu við landeigendur. Það er fyrirtækið JK&Co slf. í Grundarfirði sem tók að sér verkið, í framhaldi af verðkönnun sem fram fór um það. Stálsmíði er í höndum Vélsmiðjunnar Fönix á Rifi, sem er undirverktaki.
Framkvæmdirnar sem nú eru í gangi njóta stuðnings úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og eru einn af síðustu áföngunum sem unnir eru fyrir síðustu styrkveitingu sem sjóðurinn veitti til svæðisins.
Öryggisráðstafanir
Þar sem áningarstaðurinn nýtur gríðarlegra vinsælda er svæðið áfram aðgengilegt og bílastæði opin, meðan á framkvæmdum stendur. Takmarkanir eru þó á aðgengi og er vinnusvæðinu sjálfu lokað af með öryggisgirðingum. Stígurinn vestan megin við fossinn hefur verið opnaður tímabundið meðan á framkvæmdum stendur. Leitast er við að beina gestum um svæðið eftir því sem framkvæmdunum vindur fram, girðingar og merkingar verða færðar til, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja öryggi gesta.
Vinsældir staðarins
Kirkjufellsfoss er einn af vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á Íslandi. Hann er í raun sjálfsprottinn áningarstaður ferðafólks, sem hóf að heimsækja staðinn án þess að nokkur aðstaða byði uppá það fyrir 12-14 árum. Vinsældir staðarins má rekja til þess að myndir af fossinum, með Kirkjufellið í baksýn, náðu gríðarlegri útbreiðslu á netinu. Frægð staðarins jókst enn frekar eftir að Kirkjufell birtist í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones, sem „Arrowhead Mountain“. Staðurinn varð því bæði að einu vinsælasta myndefni og áningarstað ferðalanga á ´Íslandi. Vegna ágangs urðu á sínum tíma miklar skemmdir á gróðri og náttúru staðarins, en síðan 2014 hefur aðstaða verið byggð upp í áföngum í samvinnu Grundarfjarðarbæjar og landeigenda, með styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Aðstaðan sem upphaflega var byggð varð fljótt ófullnægjandi vegna sívaxandi gestafjölda og hefur því í nokkrum áföngum þurft að fara í enn umfangsmeiri framkvæmdir til að bæta aðstöðu.
Hér má sjá myndir af hönnun svæðisins við Kirkjufellsfoss og af verkstað nú nýverið. Smellið á myndirnar til að lesa myndatexta.