Í dag, föstudag 7. janúar 2022, fundaði almannavarnanefnd Vesturlands með sóttvarnalæknum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. 

Eftirfarandi tilmæli almannavarnanefndar voru samþykkt á fundinum:

„Í ljósi fjölgunar Covid-19 smita undanfarið í samfélaginu, áréttar almannavarnanefnd Vesturlands þau tilmæli sóttvarnayfirvalda að fólk hugi sérstaklega að því að mæta ekki til vinnu eða í skóla ef það finnur fyrir einkennum eða það grunar að það sé með smit. Þetta á jafnt við þau sem eru bólusett og þau sem eru það ekki.

Ef þú finnur fyrir einkennum er mikilvægt að halda sig heima og skrá sig í COVID PCR-próf í samræmi við leiðbeiningar á covid.is. Þetta á jafnt við börn sem fullorðna. Eins og áður er mikilvægt að huga vel að eigin sóttvörnum, svo sem þvo og spritta hendur og virða nálægðarmörkin.“

---

Til viðbótar, frá Grundarfjarðarbæ:

Aðgæsla um almennar sóttvarnir og ósk um samstarf vegna ferðalaga erlendis

Eins og við fundum sjálf fyrir hér í samfélaginu okkar, í nóvember, þegar upp komu fjölmörg smit í barnahópunum okkar, þá hefur það mikil áhrif á skóla- og frístundastarf og samfélagið allt. Áhrifin eru þau að mörg börn geta þurft að fara í sóttkví, sem er íþyngjandi aðgerð og raskar daglegu lífi. Hægt er að minnka líkurnar á slíku með því að fylgja tilmælum sóttvarnalæknis - um skimun þegar einkenni finnast.  Leggjumst á eitt og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að minnka röskun á daglegu lífi barna okkar.

Grundarfjarðarbær vill jafnframt hvetja forsjáraðila til að halda börnum á leik- og grunnskólaaldri heima þann tíma sem sóttkví varir eftir ferðalög til útlanda, á meðan beðið er eftir niðurstöðu úr sýnatöku foreldra/forráðamanna. Öruggast er að börn fari í PCR-próf áður en þau mæta í skólann, eftir ferðalög erlendis. 

Er þetta sett fram í ljósi þess að nú hafa mörg sýni greinst jákvæð á landamærunum og mikilvægt er að verja og vernda skóla- og frístundastarf eins og hægt er við þessar aðstæður.