Óhætt er að segja, að nýliðið ár hafi verið viðburðaríkt í Grundarfjarðarbæ.  Hér á eftir verður minnst á nokkur eftirminnileg atriði úr bæjarlífinu á liðnu ári.  Ekki ber að líta á þessi skrif sem tæmandi annál, frekar sem hugleiðingar um áramót.

 

Skipulagsmál:

Framan af ári og reyndar árið allt var annríki hjá starfsfólki og kjörnum fulltrúum í Grundarfjarðarbæ vegna skipulagsmála og mótunar „Fjölskyldustefnunnar“.

Unnið var m.a. í aðalskipulagi dreifbýlis sveitarfélagsins.  það verkefni hefur staðið yfir um nokkurt skeið og er ekki lokið ennþá.  Aðalskipulag af þessu tagi er mikið verkefni sem ekki er hrist fram úr erminni, því mikilvægt er að vel takist til og að góð sátt ríki um niðurstöðuna þegar hún verður fengin.  Samhliða var unnið í þó nokkrum fjölda breytinga á gildandi aðalskipulagi þéttbýlisins og eins í breyttum og nýjum deiliskipulögum.  Þessi skipulagsvinna er að talsverðu leyti um þessar mundir að komast á lokastig og munu þess sjást merki á næstu vikum og mánuðum.

 

Fjölskyldustefna Grundarfjarðar:

Fjölskyldustefna Grundarfjarðar var samþykkt í bæjarstjórn á vormánuðum og tók þegar gildi.  Unnið hefur verið að nokkrum verkefnum sem beinlínis tengjast stefnunni svo sem með SOS námskeiðum á haustmánuðum fyrir foreldra og starfsmenn í uppeldisstörfum.  Námskeiðunum verður haldið áfram.  Grunn- og leikskóli hafa tekið fyrir verkefni sem tengjast Fjölskyldustefnunni og fléttað þau inn í skólastarfið.  Sængurgjafir samfélagsins voru teknar upp á árinu og mæltust vel fyrir.  Fjölskyldustefnan var gefin út í sérriti í haust og send inn á öll heimili ásamt segulplatta með helstu áhersluþáttum hennar.  Munum það „að það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn“.

 

Sveitarstjórnarkosningar:

Kosið var til sveitarstjórna í maí mánuði á liðnu ári.  Breyting varð á skipan bæjarstjórnarinnar með því að nú buðu fram tveir listar, D og L, en höfðu verið fleiri áður og fékk D-listinn hreinan meirihluta í kosningunni.  Forseti bæjarstjórnar er Sigríður Finsen og formaður bæjarráðs er Ásgeir Valdimarsson.  Bæjarstjórnin hefur haldið að meðaltali einn fund í hverjum mánuði og bæjarráðið sömuleiðis.  Fundir hafa þó t.d. verið fleiri þegar unnið er að gerð og samþykkt fjárhagsáætlunar.

 

Framkvæmdir og framfarir:

Miklar framkvæmdir voru á vegum bæjarins og hafnarinnar á árinu.  Nægir að nefna nýja landfyllingu sem stækkaði Norðurgarð um hátt í 8.000 m2 og gerð nýrrar bryggju sem ætlað er að leysa af hólmi „Litlu bryggju“.  Þessum framkvæmdum hefur fylgt nokkuð rask og ónæði sem vonandi fer að sjá fyrir endann á.  Framfarir sem fylgja þessum framkvæmdum við höfnina og þeim sem fyrirhugaðar eru til viðbótar, eru mikilsverðar og munu styrkja allt athafnalíf sem tengist höfninni og þar með í sveitarfélaginu í heild um ókomin ár.  Mikilvægt er að sýna þessum framkvæmdum þolinmæði á meðan þær standa yfir.  Allmargar götur í Grundarfirði voru malbikaðar í sumar.  Sömuleiðis hófust framkvæmdir með því að lagnir voru settar í jörð í nokkrum mæli fyrir væntanlega hitaveitu.  Í janúar 2007 verður byrjað á undirbúningi að borun nýrrar vinnsluholu fyrir hitaveituna.  Vonast er til þess, ef allt gengur eftir áætlun, að vinna við dreifikerfi hefjist af krafti á nýbyrjuðu ári.  Ný viðbygging við leikskólann Sólvelli var tekin í notkun á haustönn skólans og óhætt að segja að nemendur, starfsfólk og foreldrar fagni þeim áfanga af heilum hug.  Ný smíðastofa sá dagsins ljós á haustönn grunnskólans öllum til mikillar gleði.  Eftir er lokafrágangur og bygging viðbótarrýmis sem mun ljúka á nýbyrjuðu ári.  Ný gámastöð var vígð í haust og er hún að mörgu leyti nýstárleg og hefur vakið athygli út fyrir sveitarfélagið.  Með byggingu gámastöðvarinnar hefur Grundarfjarðarbær slegið nýjan tón í aukinni umhverfisvitund okkar og möguleikum til flokkunar úrgangs.  Hafin er undirbúningsvinna að byggingu nýrrar íþróttamiðstöðvar.  Gert er ráð fyrir nýju íþróttahúsi og inni- og útisundlaug í miðstöðinni ásamt tilheyrandi stoðrými og búnaði.  Unnið var að fjölmörgum öðrum verkefnum á árinu og óhætt að segja að sjaldan hafa jafnmörg framfaraverkefni verið í gangi samtímis og síðastliðið ár.  Verkefnunum öllum er ekki fullkomlega lokið um þessi áramót og haldið verður áfram á nýju ári við að ljúka því sem út af stendur.

 

Starfsfólk bæjarins:

Breytingar urðu í starfsmannahaldi bæjarins á árinu 2006 og eru þær að sumu leyti enn að ganga yfir við áramót.

 

Fyrst ber að nefna Björgu Ágústsdóttur, fyrrv. bæjarstjóra sem ákvað að hætta störfum fyrir bæinn í sumar eftir áralöng farsæl störf sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins.  Samtals hafði Björg starfað, fyrst sem sveitarstjóri Eyrarsveitar og síðar sem bæjarstjóri Grundarfjarðar, í 11 ár.  Björgu eru á þessum vettvangi færðar þakkir fyrir góð störf og sömuleiðis fyrir ómetanlegar upplýsingar og aðstoð við undirritaðan, sem hefur þann heiður að taka við af henni sem bæjarstjóri.  Björg mun nú í janúar hefja störf sem ráðgjafi hjá ALTA ráðgjafarstofu og mun hafa vinnuaðstöðu að Borgarbraut 16.

 

Á skrifstofu bæjarins hafa að öðru leyti orðið miklar breytingar.  Jökull Helgason, sem starfaði sem skipulags- og byggingafulltrú, ákvað að flytja sig yfir til Borgarbyggðar og hefur tekið við nýju starfi þar.  Björn Steinar Pálmason, sem hefur verið skrifstofustjóri og staðgengill bæjarstjóra í þrjú og hálft ár, ákvað að flytja til Reykjavíkur á ný og reyna fyrir sér á nýjum vettvangi þar.  Helga Hjálmrós Bjarnadóttir hefur sagt upp starfi sínu sem aðalbókari og ritari á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Ráðið hefur verið nýtt fólk í þessi störf sem hefur tekið við og er að taka við um þessar mundir.  Nýju starfsmennirnir hafa verið kynntir á heimasíðu Grundarfjarðar.  Gera verður ráð fyrir því að íbúar og aðrir finni e.t.v. eitthvað fyrir því að  umskipti eru að ganga yfir, en vonandi mun þó allt ganga snurðulaust.

 

Veður:

Því er ekki að leyna að haustið hefur verið umhleypingasamt og nokkur stórviðri hafa skollið á.  Reynt hefur verulega á viðbrögð og þjónustu björgunarsveitarinnar og sömuleiðis á starfsmenn bæjarins í áhaldahúsi og slökkviliði.  Iðnaðarmenn komu til aðstoðar ásamt fleirum eftir því sem þörfin kallaði á hverju sinni.  Óhætt er að setja fram þá von, að hámarkinu hafi verið náð aðfararnótt Þorláksmessu þ. 23. desember sl. þegar tjón varð á mörgum húsum og bílum.  Öllum sem veitt hafa aðstoð og hafa staðið sínar skylduvaktir í þessum stórviðrum eru færðar miklar þakkir fyrir sín fórnfúsu og góðu störf.

Bæjarhátíðin, kvikmyndin um hana og Rökkurdagar:

Bæjarhátíðin „Á góðri stundu“ var haldin í sumar eins og undanfarin ár og tókst í alla staði vel.  Hátíðin dregur að sér stöðugt stækkandi hóp af brottfluttum Grundfirðingum og öðrum gestum, svo að í sumar var á mörkum að allir kæmust fyrir inni í bænum.  Óhætt er að segja að hátíðin og umgjörð hennar sé hvorttveggja í senn merkileg og um leið sérstaklega skemmtileg.  Hátíðin vakti athygli Arnar Inga fjöllistamanns, sem tók sig til og gerði kvikmynd um hátína og Grundarfjörð sem komin er í dreifingu.  Kvikmyndin nær yfir þrjú ár hátíðarinnar, þ.e. 2004, 2005 og 2006.  Óhætt er að mæla með því að Grundfirðingar og aðrir eignist eintak af kvikmyndinni sem er bæði skemmtileg og fróðleg.  Kvikmyndin fæst á DVD diski á skrifstofu bæjarins.

 

Rökkurdagar voru haldnir í haust eins og undanfarin ár.  Rökkurdagar eru merkilegt menningarframtak sem hlúa ber að.  Það er virkilega ástæða til þess að halda menningarstarfi af þessu tagi uppi og efla það eftir föngum.  Byggðin er ríkari af menningu og lífi fyrir bragðið.

 

Allt sem ekki hefur komist á blaðið:

Það er fjölmargt fleira sem undirrituðum langar til að minnast á og fara um nokkrum orðum en ekki er mögulegt að teygja lopann öllu lengur að sinni.  Nefna má t.d. starfsemi tónslistarskólans, bókasafnsins, félagsmiðstöðvarinnar, kvenfélagsins, hestaeigendafélagsins, golfklúbbsins og fleiri félaga og ótalmargt annað.  Fyrir nýjan bæjarstjóra er allt mannlíf sveitarfélagsins stöðug upplifun svo og fjölmargir skemmtilegir atburðir sem hafa verið í sumar og haust.  Það að ekki sé fleira tekið fyrir í þessum pistli, þýðir ekki að annað sé ómerkilegra, heldur aðeins það, að setja verður skrifum sem þessum einhver mörk.  Meira síðar.  

 

Nýr bæjarstjóri:

Undirritaður tók við starfi bæjarstjóra þ. 1. september sl.  Kona mín, María Busk og ég, erum flutt í Grundarfjörð og höfum tekið okkur búsetu um sinn í sveitinni, þ.e. á Grund.  Frá fyrsta degi höfum við mætt einstaklega hlýju viðmóti frá öllum íbúum Grundarfjarðar sem við höfum hitt.  Um leið og við óskum öllum Grundfirðingum nær og fjær gleðilegs nýs árs færum við ykkur öllum okkar bestu þakkir fyrir liðið ár og góðar móttökur.

 

Með góðri kveðju,

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri.