Árni Friðriksson HF-200 kom við í Grundarfirði í dag. 

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson HF-200 lagðist upp að nýja viðlegukantinum á Norðurgarði Grundarfjarðarhafnar rétt í þessu.  

Stoppið var stutt í þetta skiptið og var tilgangurinn að sækja mann. Skipið, sem er 70 m að lengd, lagðist vel upp að nýja kantinum og haggaðist ekki þrátt fyrir norðaustan kalda. Þetta er í annað skipti sem skip leggst upp að nýja viðlegukantinum, en Runólfur SH-135 lagðist þar upp að í lok janúar sl. Í það skiptið var sömuleiðis norðaustan þræsingur og var engin hreyfing á skipinu, það lá bara í festunum og var ánægjulegt að fá staðfestingu á því að aðstæður í höfninni eru orðnar enn betri en áður. 

Árni Friðriksson er hafrannsóknarskip í eigu Hafró og er nýkominn úr björgunaraðgerðum á Breiðarfirði þar sem farþegaferjan Baldur varð vélarvana. Gott er til þess að vita að farþegar og áhöfn Baldurs eru nú komin heilu og höldnu í land í Stykkishólmi.

Árni Friðriksson heldur nú á ný til rannsóknarverkefna, en hann tekur um þessar mundir þátt í "þorskveiðirallinu".