Árni M. Emilsson
Árni M. Emilsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Árni M. Emilsson var sveitarstjóri í Grundarfirði 1970-1979 og var kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn 1978, 1982 og 1986. Hann lést á Landspítalanum 17. febrúar sl., 77 ára að aldri. Útför hans fór fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ 1. mars 2021.

Eftirfarandi er kveðja frá Grundarfjarðarbæ og minningarorð rituð af Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra, en útdrátt úr þeim má finna sem minningargrein í Morgunblaðinu á útfarardegi. 

Unga sveitarstjóranum fylgdi ferskur andblær; vænting um nýja tíma. Í lofti lágu breytingar af því tagi sem annað hvort vekja hjá fólki ugg eða efla því kjark. Vissulega var hann sá fyrsti sem ráðinn var í fullt starf við daglega stjórn ört vaxandi sveitarfélags og gat því látið um sig muna. En sú var ekki eina skýringin. Árni M. Emilsson var þeirrar gerðar að strax varð ljóst að hann myndi marka skýr og mikilvæg spor í sögu byggðarlagsins, kysi hann svo sjálfur. Sem og varð.

Foreldrar Árna, þau Emil J. Magnússon og Ágústa K. Árnadóttir, fluttust í Grafarnes, sem seinna nefndist Grundarfjörður, haustið 1952 með barnahópinn sinn. Emil hafði lagt fyrir sig kaupmennsku og í þeim erindagjörðum fluttist fjölskyldan frá Þórshöfn á Langanesi. Árni var þá níu ára gamall. Á þeim tíma voru íbúar í Grafarnesi og Eyrarsveit allri um fjögurhundruð talsins. Um 1970, tæpum tveimur áratugum síðar, hafði þorpið vaxið með ógnarhraða og íbúum fjölgað hér um bil um 80% og voru orðnir um 720 talsins. Mikil uppbygging hafði átt sér stað, einkum síðasta áratuginn, þann sjöunda, með eflingu útgerðar og tilheyrandi hafnarbótum, byggingu barnaskóla, kirkju, mjólkurstöðvar, íbúðarhúsnæðis o.fl.

Vorið 1970 blésu hinir pólitísku vindar þannig að sjálfstæðismenn í kompaníi við framsóknarmenn komu sér saman um að ráða heimamanninn Árna sem sveitarstjóra, þá 27 ára gamlan. Árni hafði þá lokið landsprófi við Héraðsskólann á Skógum, stundað nám við MR í einn vetur, nám við norskan lýðháskóla og lokið íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1962. Hann hafði verið á síld á sumrin, unnið verslunarstörf með foreldrum sínum hjá Verslunarfélaginu Grund og verið barnakennari í Grundarfirði. Hann hafði fundið sinn lífsförunaut, Þórunni Björgu Sigurðardóttur, frá Sámsstöðum í Fljótshlíð, og tvö af þremur börnum þeirra voru þá fædd.

Árið 1970 voru verkefni sveitarfélagsins ærin og ekkert lát á uppgangi í byggðarlaginu, þó fjárhagurinn væri æði þröngur. En Árni var tilbúinn. Hann þekkti krafta sína og köllun, hans andi var vaknaður til sín sjálfs, og vængirnir vaxnir og fleygir, eins og Einar skáld Benediktsson orti. Árni varð strax gjörvilegur leiðtogi þessa unga byggðarlags og með vaskri sveit samverkafólks tókst hann hugaður á við uppbyggingu á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga og aukins frelsis á ýmsum sviðum.

Með fyrsta togaranum, Runólfi SH 135 sem kom í Grundarfjörð 1975, varð atvinna og viðurværi stöðugra. Áttundi áratugurinn varð mesta húsbyggingartímabil í sögu byggðarinnar, með yfir sjötíu nýjum íbúðarbyggingum. Á þessum áratug stækkuðu Grundfirðingar grunnskólann og stofnuðu tónlistarskóla, byggðu Suðurgarð Grundarfjarðarhafnar, byggðu sundlaug og réðust í það stórvirki að leggja bundið slitlag á götur og skipta um allar lagnir. Bærinn var sundurgrafinn um allnokkurt skeið og sjálfur hefur Árni lýst því hvernig sannfæra þurfti þorpsbúa og suma hreppsnefndarmenn um að slík framkvæmd væri góð hugmynd – í þágu öryggis, þæginda og framfara. “Auðvitað sættust menn á það sjónarmið að það væri eftirsóknarvert að framvegis gætum við gengið um á dönskum skóm á sólskinsdögum, rétt eins og þeir í Reykjavík”, ritaði Árni í minningargrein um Ella Guðjóns, verkstjóra hreppsins á þessum miklu framkvæmdaárum.

Í kosningum árið 1978 tók Árni í fyrsta sinn sæti á lista Sjálfstæðismanna og var kjörinn í sveitarstjórn. Sömuleiðis árin 1982 og 1986, þó ekki hafi hann setið síðastnefnda kjörtímabilið allt. Óhætt er að fullyrða að Árni naut mikils persónulegs fylgis, sem gekk þvert á flokkslínur þess tíma.

Árna leiddist ekki pólitískt vafstur og það sem hann hefði sjálfur kallað góða þrætubókarlist. Hann var vel lesinn og fróður, með eindæmum minnugur, mælskur og rökfastur og fundvís á kjarna hvers máls. Umfram allt var hann skemmtilegur sögumaður og kunni öðrum betur að átta sig á fólki. Í þá daga var pólitíkin öðruvísi og flokkslínur að mörgu leyti skarpari. Í vöggugjöf hafði Árni hins vegar fengið einkar góðar gáfur og hafði þroskað með sér fágæta samskiptahæfileika, sem byggðu á jákvæðu upplagi hans, húmorísku lífsviðhorfi og einlægum áhuga á fólki. Hann var pólitískur fram í fingurgóma, en slíkt stórmenni að hann lét ekki pólitískar þrætur hafa áhrif umfram það sem ástæða var til. Til góðs vinar liggja gagnvegir, segir í Hávamálum, og sama hvað flokkslínum leið þá voru menn þrátt fyrir allt í sama liði. Málstaðurinn var skýr og verðugur. „Við setið býli, sóttan fjörð, skal sýnd vor ást í verki“, orti Einar Ben. og víst er að ást sína og metnað fyrir byggð og samfélagi sýndi Árni alla tíð í verki, enda mikill Grundfirðingur.

Þau Þórunn og fjölskyldan öll létu ekki síður um sig muna í íþrótta-, menningar- og félagsstarfi og á margvíslegan annan hátt. Þórunn var vel látinn kennari við Grunnskóla og Tónlistarskóla Eyrarsveitar um árabil. Árni var mikill íþróttamaður, spilaði fótbolta og hafði af honum yndi, en þó var það skáklistin sem mest átti hug hans. Árni var öflugur skákmaður og lagði skákíþróttinni lið með margvíslegum hætti, bæði í heimabyggð og á vettvangi Skáksambands Íslands. Heimili þeirra Árna og Þórunnar var móttökustaður gesta sem ólík erindi áttu í Grundarfjörð vegna málefna sveitarfélagsins. Á þeim tíma voru hvorki gististaðir né veitingahús sem vísa mátti á, svo oftar en ekki tóku þau hjón að sér að hýsa og fæða gestina. Þar var nú ekki í kot vísað, en geta má nærri um að þetta hafi verið dágóð viðbót við annasama vinnudaga beggja.

Árni gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum á vettvangi félags- og sveitarstjórnarmála, ekki síst á Snæfellsnesi og Vesturlandi. Hann var m.a. formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) 1978-1980. 

Eftir níu ára tíð sem sveitarstjóri varð Árni framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs og síðar útibússtjóri Búnaðarbankans í Grundarfirði til ársins 1986 þegar fjölskyldan flutti í Garðabæinn. Þar gerðist Árni útibússtjóri Búnaðarbankans, seinna Kaupþings og síðast Landsbankans, til 2010 er hann lét af störfum.

Árni og Þórunn reistu sér glæsilegt hús í Framsveitinni, hannað af Orra syni þeirra. Á þeim griðastað fjölskyldunnar hafa þau dvalið mikið síðustu árin „því æskustöðvarnar eiga allan kærleik manns lengst“ svo enn sé vitnað í Einar Ben.

Ég naut þeirrar gæfu að vinna með Árna, sem starfsmaður í Búnaðarbankanum tvö sumur. Árni treysti ungu fólki til vandasamra verka og talaði við okkur sem jafningja. Seinna naut ég einnig stuðnings hans og góðra ráða, sem ungur sveitarstjóri í sömu sveit og vináttu æ síðan. Fyrir þessi kynni verð ég ævinlega þakklát. Við Hemmi sendum Þórunni, Orra, Örnu og Ágústu Rós og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Um leið færi ég fjölskyldu og ástvinum samúðarkveðjur frá Grundarfjarðarbæ.
Hinstu kveðju og virðingu vottar bæjarstjórn Árna M. Emilssyni, með þakklæti fyrir hans verðmæta framlag til byggðar og samfélags.   

Vertu kært kvaddur er heldur þú þinn veg og teflir á nýjum slóðum.
Þar mun tæpast ríkja lognmolla, en án alls vafa gleðin – eða enn með orðum Einars Ben.:

Bráðum slær í faldafeykinn -
forlög vitrast gegnum reykinn.
Alls má freista. Eitt ég vil.
Upp með taflið. – Ég á leikinn.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði

 

Myndirnar sem hér fylgja eru úr safni Bærings Cecilssonar og eru frá sveitarstjóratíð Árna, ca. 1970-1979. 
Smellið á myndirnar til að stækka þær og lesa myndatexta.

 Árni með hreppsnefnd Eyrarsveitar 1970-1974