Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar 2021 var samþykktur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 3. maí sl. 

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A- og B-hluta) var jákvæð um 29,5 milljónir króna árið 2021 - betri en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir. Upphafleg fjárhagsáætlun (fyrir viðauka) gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu uppá rúmar 40 millj. kr. og varð afkoman því töluvert jákvæðari, eða sem nemur um 70 milljónum króna.

Starfsemi A- og B-hluta

Starfsemi sveitarfélaga skiptist í A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta (bæjarsjóður) telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, en til B-hluta teljast fyrirtæki sem eru í eigu bæjarfélagsins, en eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Þessir sjóðir eru Hafnarsjóður, Fráveita, Leiguíbúðir, Íbúðir aldraðra, Sorphirða og sorpeyðing og Sögumiðstöð. Talað er um "samstæðu" eða "samantekinn ársreikning" fyrir A- og B-hluta samanlagt. Þegar talað er um "viðauka" þá er það breyting sem bæjarstjórn gerir á rekstrarárinu á upphaflegri fjárhagsáætlun, en alla jafna breytist sú áætlun ekki mikið.

Rekstur samstæðunnar

Rekstrartekjur á árinu námu 1.316 milljónum króna skv. samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta, en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.225 milljónum króna (upphafleg áætlun gerði ráð fyrir um 1172 millj. kr.)

Rekstrargjöld samstæðunnar (A og B) námu 1.102 millj. kr. án fjármagnsliða, en áætlun hafði gert ráð fyrir 1.075 millj.kr.

Tekjur voru því 5,7% yfir áætlun ársins með viðaukum og útgjöld 2,5% yfir áætlun.

Rekstrargjöld án fjármagnsliða voru 89% af skatttekjum.

Veltufé frá rekstri var 181 millj. kr. fyrir samstæðuna og hækkar um 46 millj. kr. milli ára, eða um rúm 34%. Veltufé frá rekstri samstæðunnar var því rétt tæp 14% af heildartekjum hennar á árinu 2021, en hjá A-hluta var hlutfallið 8,4%.

Rekstrarafkoma – samanburður við fyrri ár

Annað árið í röð hafði heimsfaraldur Covid-19 talsverð áhrif, bæði á starfsemi og fjármál Grundarfjarðarbæjar. Þó er rekstrarniðurstaðan nokkuð jákvæðari 2021 en árið 2020.

Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu úr tæpum 1.220 millj. kr. árið 2020 í 1.316 millj. kr. árið 2021, eða um tæp 8%, en rekstrargjöld hækkuðu um tæp 5%, úr 1.053 millj. kr. árið 2020 í 1.102 millj. kr. árið 2021, fyrir samstæðuna.

Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði fór úr 100 millj. kr. árið 2020 í 142 millj. kr. árið 2021.

Fjármagnskostnaður fór hins vegar úr 93 millj. kr. árið 2020 í 113 millj. kr. árið 2021 fyrir samstæðuna. Bærinn greiddi því 20 milljónum meira í vexti og verðbætur af lánum á árinu 2021, þrátt fyrir að skuldir héldust nær óbreyttar og þrátt fyrir að greidd hefðu verið niður óhagstæðari lán – og veldur aukin verðbólga þessu.

Rekstrarafkoma ársins 2021 varð 29,5 millj. kr., samanborið við 6,8 millj. kr. árið 2020.
Árið 2019, síðasta heila árið fyrir Covid, var rekstrarafkoman 83,3 millj. kr. og árið 2018 var hún 52,1 millj. kr.

Eignir og skuldir

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 963,9 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A-hluta 745,6 milljónum króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu 2,3 milljörðum króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi rúmum 2,8 milljörðum króna í árslok 2021.

Heildarskuldir bæjarsjóðs (A-hluti) námu um 1.567 millj. króna. Skuldir í samanteknum ársreikningi (A- og B-hluti) voru 1.884 millj. króna í árslok 2021, en voru 1.883 árið 2020, og hækkuðu einungis um 700 þúsund milli ára. 

Skuldahlutfall skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga er 111,66% í samanteknum ársreikningi, en var 119,37% árið 2020. Hjá sjóðum A-hluta var þetta hlutfall 100,28% á árinu, en var 100,64% á árinu 2020. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150% (þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hluta séu ekki hærri en 150% af reglulegum tekjum).

 

Hlutfall skulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum áranna 2017-2021. Úr endurskoðunarskýrslu Deloitte vegna ársins 2021.

Hlutfall skulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum áranna 2017-2021.
Tölurnar í bláu súlunum eru eldra skuldaviðmið, sem oft er sýnt samhliða gildandi viðmiði.
Úr endurskoðunarskýrslu Deloitte vegna ársins 2021.

 

Hér er slóð á ársreikning Grundarfjarðarbæjar 2021 og fyrri ára.