Í ársreikningi Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 kemur fram talsverður bati í rekstri bæjarins.  Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður lækkaði á milli áranna 2008 og 2009.  Þetta tókst með þeim aðhaldsaðgerðum sem bæjarstjórnin greip til eftir efnahagshrunið og með samstilltu átaki starfsmanna bæjarins.  Ástæða er til þess að þakka öllu starfsfólki bæjarins sérstaklega fyrir þeirra þátt í bættri rekstrarafkomu.  Afgangur af rekstri fyrir afskriftir og fjármagnskostnað er 116 milljón krónur.  Veltufé frá rekstrinum jókst á árinu frá því sem var 2008 og varð 66,6 milljónir króna.  Afborganir lána voru 30 milljón krónum hærri en nýjar lántökur.  

Þetta sýnir að hafin er markviss lækkun skulda bæjarins.  Verðbólga var nokkur ásamt gengissigi á árinu 2009.  Þetta hafði í för með sér aukinn fjármagnskostnað, en þó ekki eins mikinn og endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.  

Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að halli á rekstri samstæðunnar gæti orðið rúmlega 100 milljónir króna, en hann varð í raun 68,9 milljónir króna, eða rúmlega 30 milljón krónum lægri.  Brúttó fjárfesting ársins var 68 milljón krónur en á móti komu framlög og sala eignar, þannig að nettó varð fjárfesting ársins rúmlega 38 milljón krónur.

Heildareignir Grundarfjarðarbæjar í árslok 2009 voru 1.422 milljónir króna og heildarskuldir voru 1.665 milljónir króna.  Eiginfjárstaða var þ.a.l. neikvæð um 243 milljónir króna.  Þess má geta, að eignir eru ekki uppreiknaðar í samræmi við þróun verðbólgu og gengis, en sú þróun leggst aftur á móti af fullum þunga á skuldahliðina, þannig að misvægi er á meðferð þessara efnahagsþátta. 

Megin markmið í fjárhagsstýringu bæjarins á næstu árum verður að lækka heildarskuldastöðuna og þá um leið fjármagnskostnaðinn.

 

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 er mörkuð sama stefna, þ.e. aðhald í rekstrinum og lækkun skulda bæjarsjóðs.  Eins og á árinu 2009 verður fylgst vel með þróun tekna og gjalda bæjarsjóðs og því fylgt eftir að markmið fjárhagsáætlunarinnar náist.

 

Ársreikningar Grundarfjarðarbæjar verða birtir (innan 1 - 2ja daga) á heimsíðu bæjarins undir „Stjórnsýsla / fjármál“