Ársfundur Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, haldinn 27. júlí 2002.

Skýrsla stjórnar.

Með þessum ársfundi lýkur þriðja starfsári Eyrbyggja. Síðasti ársfundur var ,,Á góðum dögum í Grundarfirði” fyrir ári síðan. Í núverandi stjórn eru Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Pálsson, Hermann Jóhannesson, Hildur Mósesdóttir og Ólafur Hjálmarsson. 

Að venju hefur stjórnin fundað reglulega fyrsta mánudag hvers mánaðar kl. 20 , fyrst í kaffiteríunni í Perlunni í Reykjavík en síðan fluttum við okkur yfir á Grand Hótel.  Mjög kröftugt starf var á síðasta ári hjá ýmsum vinnunefndum Eyrbyggja.

1.      Safn til sögu Eyrarsveitar

 

Á síðustu Grundarfjarðarhátíð gáfu Eyrbyggjar í samvinnu við sögunefnd Eyrarsveitar út annað heftið í flokki sem við köllum ,,Safn til sögu Eyrarsveitar”. Þegar fyrsta heftið var gefið út sumarið 2000 voru prentuð 500 eintök. Sú bók er nú uppseld. Síðastliðið ár létum við prenta 1000 eintök. Við eigum enn nokkrar fyrningar frá þeirri útgáfu. Grundarfjarðarbær hefur veitt okkur 500.000 kr styrk úr menninga- og listasjóði til útgáfunnar. Einnig fengum við 150.000 kr frá ,,Styrktarsjóði Sparisjóðs Eyrarsveitar”. Þá veitti Menningarsjóður Búnaðarbankans okkur 200.000 kr styrk. Fyrsta heftið okkar var 150 bls. Annað heftið var 190 bls. Þriðja heftið 2002 sem fór í dreifingu nú á hátíðinni er um 250 bls og því fylgir einnig stór örnefnamynd.

2.      Örnefnaskrár Örnefnastofnunar

Ráðist var í það verkefni að koma örnefnaskrám Örnefnastofnunar fyrir allar jarðir í Eyrarsveit á tölvutækt form. Eyrbyggjar fengu 30.000 kr styrk frá Örnefnastofnun og sama framlag á móti frá Grundarfjarðarbæ. Nemendur úr 9. bekk Grunnskólans í Grundarfirði tóku að sér að vélrita allar skrárnar inn í tölvu. Hugrún Elísdóttir kennari hafði umsjón með þessu verki fyrir Eyrbyggja. Tölvuskrárnar fóru síðan til yfirlestrar hjá Örnefnastofnun og hafa nú verið settar inn á heimasíðu Grundarfjarðar, á slóðinni www.grundarfjordur.is , þar undir er flokkurinn sögupunktar, og eru örnefnaskrár fyrir alla sveitabæi í Eyrarsveit geymdar þar í stafrófsröð. Ég vil hvetja staðkunnuga til að lesa yfir örnefnaskrárnar, og senda athugasemdir eða viðbótarupplýsingar til Örnefnastofnunar. Ég sé fyrir mér að síðar munum við bæta inn myndum af öllum sveitabæjum. Frændurnir Guðjón Elísson og Sveinn Arnórsson eru nú þegar byrjaðir á að safna myndum af öllum bæjum í Eyrarsveit, sem við getum síðar bætt inn á heimasíðuna. Við tækifæri munum við gefa allar örnefnaskrárnar út í bók með örnefnamyndum.

3.      Örnefni á loftmyndir

Eyrbyggjar hafa gert samkomulag við Örnefnastofnun og fyrirtækið Loftmyndir um að þessir aðilar standi saman að skráningu og útgáfu örnefna í Eyrarsveit. Fyrirtækið Loftmyndir hefur afhent Eyrbyggjum litloftmyndir sem hver er um 70*70 sm. Það þarf um 8-10 myndir til að ná yfir alla sveitina. Örnefnanefnd Eyrbyggja hefur fært inn á þessar myndir helstu örnefni. Þeirri vinnu hafa einkum sinnt Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir og Gunnar Magnússon frá Kirkjufelli. Búið er að færa inn á fimm loftmyndir sem ná yfir um helming sveitarinnar. Fyrirtækið Loftmyndir hefur fengið þau gögn og er að vinna við að færa þau inn á stafrænan grunn. Að því loknu verður prentuð út próförk sem kemur til yfirlestrar hjá Örnefnastofnun og Eyrbyggjum.  Arnór Kristjánsson á Eiði er að færa örnefni inn á loftmynd af umhverfi Kolgrafarfjarðar. Loftmyndir vantar af hluta sveitarinnar og er að því stefnt að taka þær myndir nú í sumar. Þegar þessari vinnu er lokið er kominn góður grunnur til að útbúa góð kort af Eyrarsveit og hagkvæmt og ódýrt verður að láta prenta ýmis sérkort, gönguleiðakort eða skipulagskort.

4.      Útsýnismyndir með örnefnum

Með bókinni okkar sem er nú í dreifingu fylgir stór mynd, um 100*33 sm sem sýnir fjallahringinn við Grundarfjörð, og hafa verið færð inn á hana helstu örnefni. Guðjón Elísson hefur verið mjög ötull fyrir Eyrbyggja við myndatöku og tölvuvinnslu við að færa örnefnin inn á myndirnar samkvæmt gögnum frá örnefnanefnd.  Guðjón mun taka samsvarandi myndir af fjallahringnum umhverfis Kolgrafarfjörð nú í sumar, og er að því stefnt að nota þær myndir næsta vetur og færa inn á þær örnefni.

5.      Framfaraverðlaun Eyrbyggja

Eyrbyggja hafa veitt svokölluð Framfaraverðlaun Eyrbyggja í ársbyrjun á þrettándanum hér í Grundarfirði. Árið 2000 hlutu verðlaunin foreldrasamstarfið Tilvera og fyrirtækið Guðmundur Runólfsson. Á Þrettándanum árið 2001 veittu Sigríður Finsen oddviti og Anna Bergsdóttir skólastjóri viðtöku Framfaraverðlaunum vegna fjarnáms á framhaldsskólastigi hér í Grundarfirði og fyrirtækið Ragnar og Ásgeir hlaut Framfaraverðlaun Eyrbyggja fyrir öfluga uppbyggingu í Grundarfirði.  Á Þrettándanum 2002 hlaut þessa viðurkenningu Mareind ehf fyrir farsæla uppbyggingu á nýju fyrirtæki með nýja þjónustu í byggðarlaginu.

6.      Uppbygging eftir loftmyndum

Eyrbyggjar hafa keypt 14 loftmyndir á tölvutæku formi af Grundarfirði frá 1946 til 1993. Fyrirhugað er að nota myndirnar til að gera grein fyrir uppbyggingu byggðarlagsins og þróun.

Sigurberg Árnason frá Hellnafelli og fyrrverandi byggingarfulltrúi í Grundarfirði hefur tekið að sér í samvinnu við núverandi formann Eyrbyggja sem hér stendur að skrá inn á myndirnar á tölvutæku formi upplýsingar um hús og byggingar og þróun byggðalagsins. Þessi vinna hefur gengið hægar en metnaðarfull áætlun okkar frændanna var, en við munum ekki láta deigan síga og hyggjumst þoka þessu áfram. 

7.      Útgerðarsaga Grundarfjarðar

Eyrbyggjar hafa verið í góðu sambandi við nema í sagnfræði, Davíð Wíum, sem vinnur að lokaritgerð um útgerðarsögu Grundarfjarðar. Hann stefnið að því að ljúka við ritgerðina um næstu áramót, og ef það hentar, gætum við birt hana í næstu bókinni okkar sumarið 2003.

8.      Skipulagskort 1943-1983

Eyrbyggjar létu taka afrit af gömlum kortum sem voru á Skipulagsstofnun. Um er að ræða 16 kort frá tímabilinu 1943-1983. Við höfum afrit af þessum kortum bæði á pappír og einnig skannað á geisladisk. Kostnaður Eyrbyggja var um 18.000 kr. Gaman væri að setja upp sýningu á þessum kortum. Best væri að gera það í samvinnu við Skipulagsstofnun, því þar er fólk sem kann til verka við að setja upp slíka sýningu. Elstu kortin eru mjög merkileg því Grundarfjörður er fyrsta byggðin sem var skipulögð alveg frá grunni, sem skýrist af því hversu stutt er síðan uppbygging hófst í Grundarfirði.

9.      Hugsanleg efni í næstu bók

Nú þegar hafa komið fram nokkrar hugmyndir um efni í næstu bók. Þótt það tilheyri ekki skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár, vil ég aðeins tæpa á þessum hugmyndum, því hér er svigrúm til að taka á móti gagnrýni á efnisval eða að setja fram nýjar hugmyndir sem við gætum þá undirbúið fyrir næsta ár.

Hugsanlegt efni.

1.                  Nýr kafli frá Ásgeiri Guðmundsson sem hann skrifaði um sögu Grundarfjarðar.

2.                  Sjálfsævisaga Sr,. Jens Hjaltalíns, Setbergi, um 60 bls

3.                  Útgerðarsaga Grundarfjarðar, Davíð Wíum

4.                  Örnefnaskrár Eyrarsveitar

5.                  Bjarni á Berserkseyri, Jóhannes F. Halldórsson

6.                  Annáll 2002, Björg Ágústsdóttir

7.                  Vísur frá vísnanefnd

8.                  Örnefnamynd Kolgrafarfirði

9.                  Manntalið 1703. Kristján E. Guðmundsson

10.              Hattarinn á Grund. Ingi Hans Jónsson.

11.              Edduslysið 1953, frá sjónarhóli Suður-Bárs. Tryggvi Gunnarsson

12.              Áætlunarferðir með fólk og vörur. Elínbjörg Kristjánsdóttir

13.              Jólavörur vestur á Þorláksmessu 1955. Tryggvi Gunnarsson

14.              Kirkjufell, Firðafjall, Fríðafjall. Þórhallur Vilmundarson

15.              VinabæjarheimsóknGrundfirðinga til Paimpol í Frakklandi 2002.

16.              Þróun skipulags í Grundarfirði 1943-2003. Skipulagsstofnun.

10.  Starfsnefndir Eyrbyggja

Eins og getið var hér að framan eru ýmsar starfsnefndir hjá Eyrbyggjum sem vinna að ákveðnum verkefnum.

Í starfsnefnd um söfnun á vísum og sögum eru Gunnar Njálsson, Halldór Páll Halldórsson, Páll Cecilsson og Vigdís Gunnarsdóttir. Í bókinni sem við vorum að gefa út birtist nokkuð af efni sem nefndin hefur náð saman.

Í starfsnefnd um söfnun og skráningu ljósmynda eru Sunna Njálsdóttir, Hermann Jóhannesson, Sveinn Arnórsson, Magnús Soffaníasson , Guðjón Elísson og Ásgeir Þór Árnason. Í þeirri vinnu sem framundan er þurfum við að leggja áherslu bæði á að skanna gamlar myndir til varðveislu en einnig að skrá myndir og upplýsingar um myndirnar á skipulegan hátt. Skráningin er mjög mikilvæg til að gera leit að myndum síðar auðvelda og árangursríka. Ég vænti þess að Sunna verði okkur innan handar með að skipuleggja skráninguna og gagnasafnið.

Í starfsnefnd um skráningu fiskimiða eru feðgarnir Elís Guðjónsson og Guðjón Elísson. Elís hefur lagt til gamlar lýsingar á fiskimiðum. Guðjón hefur fært lýsingarnar inn á kort sem við höfum síðan birt í bókinni okkar.

Hér að framan hef ég sagt nokkuð frá starfi örnefnanefndar, en í örnefnanefnd eru Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir, Gunnar Magnússon Kirkjufelli og Gísli Karel Halldórsson verkfræðingur.

Eins og áður var sagt standa Eyrbyggjar og Sögunefnd Eyrarsveitar saman að útgáfu á  þriðja heftinu í flokknum ,,Safn til sögu Eyrarsveitar”. Sögunefndin er tilnefnd af Grundarfjarðarbæ en Eyrbyggjar eru frjáls félagasamtök. Í sögunefnd Eyrarsveitar eru Dóra Haraldsdóttir, Gunnar Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson.

Ég vil þakka bæjarstjórunum Björgu Ágústsdóttur og Eyþóri Björnssyni fyrir öflugan stuðning á síðasta starsári. Sá stuðningur var bæði fjárstuðningur við útgáfuna en einnig hafa þau bæði sýnt þessu starfi velvilja og verið hvetjandi fyrir okkur til að sinna þessu verki.  Björg var  í barneignafríi á starfsárinu, en ég hugsa að það hafi varla liðið nokkur vika án þess að við værum í símsambandi eða í tölvusambandi.

Að lokum vil ég þakka samstarfsfólki mínu í Eyrbyggjum, þeim sem lögðu til greinar í nýju bókina  og öllum þeim sem hafa lagt okkur lið á síðasta starfsári fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Gísli Karel Halldórsson

Formaður Eyrbyggja starfsárið 2001-2002.