Skýrsla stjórnar.

 

Með þessum ársfundi lýkur fjórða starfsári Eyrbyggja. Síðasti ársfundur var ,,Á góðri stund í Grundarfirði” fyrir ári síðan. Í núverandi stjórn eru Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Pálsson, Hermann Jóhannesson, Orri Árnason, Ásthildur E. Kristjánsdóttir og fyrst Hrönn Harðardóttir og síðar Hrafnhildur Pálsdóttir sem leysti Hrönn af vegna anna.

Að venju hefur stjórnin fundað reglulega einu sinni í mánuði og á þessu starfsári völdum við  fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl. 20. Mjög kröftugt starf var á síðasta ári hjá ýmsum vinnunefndum Eyrbyggja.

1.   Safn til sögu Eyrarsveitar

 

Á starfsárinu kom út fjórða bókin  sem nefnist ,,Fólkið, fjöllin, fjörðurinn” í ritröðinni ,,Safn til sögu Eyrarsveitar”. Nýja bókin er 303 bls., og því stærri en fyrri bækur.  Bókin var prentuð í 1.000 eintökum og er komin í dreifingu. Fyrsta bókin okkar sem kom út árið 1999 er uppseld, en bækur 2 og 3 eru enn fáanlegar.

 

2.   Örnefnmynd af Kolgrafafirði

 

Guðjón Elísson tók víðmynd af fjallahringnum umhverfis Kolgrafafjörð. Myndin var prentuð út og leitað var til Arnórs á Eiði, Gunnars og Maríu á Kolgröfum, Hreins á Berserkseyri, Elísar Guðjónssonar, Kjartans í Nýjubúð og fleiri um skráningu örnefna inn á víðmyndina af Kolgrafafirði. Í framhaldi af því var prentuð veggmynd 103 x 27 cm að stærð þar sem helstu örnefni umhverfis Kolgrafafjörð eru færð inn. Þessi örnefnamynd fylgir framangreindri bók í dreifingu og bókin og kortið eru seld saman á 2.000 kr.

Örnefnaskrár Örnefnastofnunar fyrir Eyrarsveit og hafa nú verið settar inn á heimasíðu Grundarfjarðar, á slóðinni www.grundarfjordur.is , þar undir er flokkurinn sögupunktar og eru örnefnaskrár fyrir alla sveitabæi í Eyrarsveit geymdar þar í stafrófsröð.

Frændurnir Guðjón Elísson og Sveinn Arnórsson eru nú þegar byrjaðir á að safna myndum af öllum bæjum í Eyrarsveit, sem við getum síðar bætt inn á heimasíðuna. Við tækifæri munum við gefa allar örnefnaskrárnar út í bók með örnefnamyndum.

3.   Örnefni á loftmyndir og ný kort af Eyrarsveit.

 

Eyrbyggjar hafa gert samkomulag við Örnefnastofnun og fyrirtækið Loftmyndir um að þessir aðilar standi saman að skráningu og útgáfu örnefna í Eyrarsveit. Fyrirtækið Loftmyndir hefur afhent Eyrbyggjum litloftmyndir sem hver er um 70x70 cm. Örnefnanefnd Eyrbyggja hefur fært inn á þessar myndir helstu örnefni. Þeirri vinnu hafa einkum sinnt Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir og Gunnar Magnússon frá Kirkjufelli, en mikill fjöldi staðkunnugra hefur komið þar að eins og Hildur hefur gert grein fyrir í nýjustu bókinni okkar.  Búið er að prenta út fyrstu próförk af loftmyndakorti af allri Eyrarsveit með örnefnum. Einn hængur er hér á sem ekki hefur verið leyst. Loftmyndirnar sem teknar hafa verið sýna mikla skugga frá bröttum fjöllum þannig að landið í skugganum kemur ekki vel fram.  Við viljum gjarnan flýta okkur hægt með útgáfu á þessum kortum og leggja áherslu á að framsetning verði góð.

 

4.   Viðhald á Grundarrétt

 

Eyrbyggjar stóðu fyrir því síðastliðið haust að ná saman fólki til að vinna við viðhald Grundarréttar. Bændurnir Hörður Pálsson á Hömrum og Arnór Kristjánsson á Eiði leiðbeindu um hvernig ætti að standa að verki.

 

5.   Framfaraverðlaun Eyrbyggja

 

Eyrbyggja hafa undanfarin ár veitt svokölluð Framfaraverðlaun Eyrbyggja. Árið 2000 hlutu verðlaunin foreldrasamstarfið Tilvera og fyrirtækið Guðmundur Runólfsson. Á Þrettándanum árið 2001 veittu Sigríður Finsen oddviti og Anna Bergsdóttir skólastjóri viðtöku Framfaraverðlaunum vegna fjarnáms á framhaldsskólastigi hér í Grundarfirði og fyrirtækið Ragnar og Ásgeir hlaut Framfaraverðlaun Eyrbyggja fyrir öfluga uppbyggingu í Grundarfirði.  Á Þrettándanum 2002 hlaut þessa viðurkenningu Mareind ehf. fyrir farsæla uppbyggingu á nýju fyrirtæki með nýja þjónustu í byggðarlaginu.  Í upphafi þessa árs 2003 var ákveðið að veita þrem  einstaklingum hér í Grundarfirði þessi verðlaun fyrir að hafa verið mjög duglegir við að varðveita sýn á gamla samfélagið og koma þeim fróðleik á framfæri til þess fólks sem gengur um grundu í dag. Þessi einstaklingar eru Guðjón Elísson, Ingi Hans Jónsson og Sveinn Arnórsson.

 

6.   Fjármál

 

Til að fjármagna þessar útgáfur sem við höfum staðið fyrir höfum við leitað styrkja hjá ýmsum aðilum.  Á þessu starfsári fengum við veglegan styrk í fyrsta sinn frá fjárveitinganefnd í gegnum Menntamálaráðuneytið. Styrkurinn var 400.000 kr. Við þurfum nú fyrir októberlok að gera grein fyrir því að við höfum lokið því verkefni sem við sóttum um styrk til og sækja um nýja fjárveitingu fyrir næsta ár. Menningarsjóður Íslandsbanka veitti okkur 150.000 kr styrk. Styrktarsjóður Sparisjóðs Eyrarsveitar veitti nú í ár 300.000 kr styrk til útgáfu á fjórðu bókinni ,,Fólkið, fjöllin, fjörðurinn” . Grundarfjarðarbær hefur einnig frá upphafi staðið vel við bakið á okkur.

 

7.   Starfsnefndir Eyrbyggja

 

Oft er sagt að margar hendur vinni létt verk. Eyrbyggjar hafa reynt að virkja sem flesta við ýmis verkefni. Það höfum við gert með því að hafa nokkrar starfsnefndir. Hver starfsnefnd hefur ákveðið verkefni og við höfum fengið áhugasamt fólk til starfa í hverri nefnd.

 

Í starfsnefnd um söfnun á vísum og sögum eru Gunnar Njálsson, Halldór Páll Halldórsson, Páll Cecilsson og Vigdís Gunnarsdóttir.

 

Í starfsnefnd um söfnun og skráningu ljósmynda eru Sunna Njálsdóttir, Hermann Jóhannesson, Sveinn Arnórsson, Magnús Soffaníasson, Guðjón Elísson og Ásgeir Þór Árnason.

 

Í starfsnefnd um skráningu fiskimiða eru feðgarnir Elís Guðjónsson og Guðjón Elísson. Elís hefur lagt til gamlar lýsingar á fiskimiðum. Guðjón hefur fært lýsingarnar inn á kort sem við höfum síðan birt í bókinni okkar.

 

Hér að framan hef ég sagt nokkuð frá starfi örnefnanefndar, en í örnefnanefnd eru Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir, Gunnar Magnússon Kirkjufelli og Gísli Karel Halldórsson verkfræðingur.

 

8.   Mannauður, vannýtt auðlind

 

Í gegnum þetta starf okkar undanfarið hef ég sannfærst um að mikill mannauður er vannýtt auðlind hér í samfélaginu. Margt fullorðið folk býr yfir þekkingu og getur sagt frá markverðum atburðum frá fyrri tíð.  Við þurfum að virkja þetta folk. Sumir eru til í að skrifa greinar, aðrir segja vel frá, enn aðrir geta veitt upplýsingar um hvað gamlar ljósmyndir sýna eða gamlar gönguleiðir, gömul fiskimið og fleira. Lítillega höfum við tekið upp viðtöl og samtöl við einstaklinga. Þetta þyrfti að gera í mun meira mæli. Ég sé fyrir mér að eftir nokkur ár þá getum við útbúið margmiðlunardisk með texta, myndum, tali, kortum,  skýringum og efnisyfirliti. Sá sem opnar diskinn velur það efni sem hann hefur áhuga á að skoða eða hlusta á hverju sinni. Gaman væri að safna viðtölum til birtingar á diskinn. Það er lífsins gangur að fólk fellur frá. Á þessu ári lést vinkona mín  Helga Gróa Lárusdóttir, en hún skrifaði grein sem við birtum í þriðju bókinni um Borgu í Bænum og Dóra. Eiginmaður Helgu Gróu, indælismaður,  Hannes Finnbogason læknir lést í fyrra, en hann skrifaði merkilega grein fyrir okkur í fyrstu bókina, sem hann nefndi ,,Skynlausar skepnur”.  Mikilvægt er því að koma fróðleik frá eldra fólkinu á það form að eftirkomendurnir fái að njóta þess.

9.   Lokaorð

 

 

Eins og áður var sagt standa Eyrbyggjar og Sögunefnd Eyrarsveitar saman að útgáfu á  fjórðu bókinni í flokknum ,,Safn til sögu Eyrarsveitar”. Sögunefndin er tilnefnd af Grundarfjarðarbæ en Eyrbyggjar eru frjáls félagasamtök. Í sögunefnd Eyrarsveitar eru Dóra Haraldsdóttir, Gunnar Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson.

 

Ég vil þakka bæjarstjóranum Björgu Ágústsdóttur og bæjarstjórn Grundarfjarðar fyrir stuðning við þetta starf frá upphafi. Sá stuðningur hefur verið bæði fjárstuðningur við útgáfuna en einnig hafa þau bæði sýnt þessu starfi velvilja og verið hvetjandi fyrir okkur til að sinna þessu verki. 

 

Að lokum vil ég þakka samstarfsfólki mínu í Eyrbyggjum, þeim sem lögðu til greinar í nýju bókina  og öllum þeim sem hafa lagt okkur lið á síðasta starfsári fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

 

 

Gísli Karel Halldórsson

Formaður Eyrbyggja starfsárið 2002-2003.