Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar var svohljóðandi áskorun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samþykkt samhljóða:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auka við aflaheimildir. Staða margra sveitarfélaga og hafnarsjóða er slæm og með boðuðum niðurskurði á fjárlögum s.s. aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og niðurfellingu á endurgreiðslu vegna tryggingagjalds, munu erfiðleikar þeirra aukast til muna.

Aukin úthlutun á aflaheimildum er kjörin leið til að auka tekjur þeirra byggðarlaga sem byggja afkomu sína að miklu leyti á veiðum og vinnslu sjávarafla.

Hægt er að auka aflaheimildir í mörgum tegundum án þess að gengið sé á fiskistofna til dæmis með breytingu á aflareglu.

Skiptar skoðanir eru um mælingar og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar en þó viljum við benda á að samkvæmt mati hennar setur veiði miðað við 25% aflareglu í stað 20% sem er í dag, ekki þorskstofninn í hættu heldur hægir eingöngu á uppbyggingu stofnsins. Breyting á aflareglu úr 20% í 25% hefði í för með sér að veiði á þorski myndi aukast um 40 þúsund tonn á árinu.

Með slíkri breytingu á aflareglu er tekin skynsamleg ákvörðun í ljósi

efnahagsástands og atvinnumála. Slík ráðstöfun hlýtur að vera réttlætanleg til að efla byggðir landsins og skjóta traustari fótum undir atvinnu ásamt því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Breyting á aflareglu er á valdi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem auknar aflaheimildir hafa á samfélög eins og Grundarfjörð, skorar bæjarstjórn Grundarfjarðar á Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir auknum aflaheimildum sem fyrst."