Hér má sjá hvar spýjan féll úr Flettum. Ljósm. SK.

Stór og löng aurskriða féll í Kirkjufelli í Grundarfirði fyrir tæpum tveimur vikum. Skriðan féll í Búðarlandi en Valgeir Þór Magnússon bóndi í Kirkjufelli segir grenjandi rigningar hafa verið dagana áður. “Það var mikil mildi að skriðan skyldi ekki falla nálægt bæjum eða fólki. Þó var fé á beit í fjallinu þegar skriðan féll en ég get þó ekki séð að það vanti neitt fé hjá okkur. Það er auðvitað búið að smala og flestar kindur voru heima í túni þegar skriðan féll,” sagði Valgeir í samtali við Skessuhorn.

Aurskriðan sést illa frá Grundarfirði en er þó gríðarlega stór að sögn Valgeirs. Fyrir þá sem þekkja fjallið þá fellur hún efst úr Flettum og nær niður fyrir Katla. Fyrir nokkrum árum féll önnur skriða í Kirkjufelli, fyrir ofan Háls, og skildi eftir sig stórt sár í fellinu. Aðspurður hvort hætta sé á frekari skriðum segist Valgeir ekki hafa trú á því.

 

Tekið af vef Skessuhorns.